Skipulagsstofnun gefur út álit um eldisstöð laxfiska á landi í Vestmannaeyjum

Deila:

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit vegna eldisstöðvar laxfiska á landi í Vestmannaeyjum skv. lögum nr. 111/2021. Álitið liggur frammi hjá Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b, Reykjavík.

Niðurstaðan er svohljóðandi:

Í samræmi við 16. gr. reglugerðar nr. 1381/2021 hefur Skipulagsstofnun farið yfir umhverfismatsskýrslu Icelandic Land Farmed Salmon um eldisstöð laxfiska á landi í Vestmannaeyjum sem lögð var fram samkvæmt 23. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Skipulagsstofnun telur að umhverfismatsskýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Í umhverfismatsskýrslu Icelandic Land Farmed Salmon eru kynnt áform um eldisstöð laxfiska á landi í Viðlagafjöru auk seiðaeldisstöðvar í Friðarhöfn í Vestmannaeyjum. Skipulagsstofnun telur ljóst að fyrirhugaðar framkvæmdir koma til með að breyta ásýnd svæðisins til frambúðar og upplifun íbúa og vegfarenda sem stunda útivist eða eiga leið um svæðið komi til með breytast. Á framkvæmdatíma verða áhrif á ásýnd framkvæmdasvæðisins í Viðlagafjöru talsvert neikvæð vegna þess mikla rasks sem fylgir, en þau áhrif verða að hluta tímabundin en varanleg áhrif verða að nokkru leyti háð verktilhögun framkvæmdaraðila. Skipulagsstofnun telur að líta verði svo á að áhrif á landslag og ásýnd sem og á útivist verði svæðisbundið nokkuð neikvæð.

Skipulagsstofnun telur að sá valkostur sem feli í sér losun frárennslis í viðtakatjörn sé síður til þess fallinn að valda neikvæðum áhrifum á fugla en sá kostur að veita frárennsli beint til sjávar þar sem þá sé viðbúið að fæðuframboð aukist fyrir ýmsar fuglategundir í nágrenni Viðlagafjöru. Ef eldið leiðir til fjölgunar máva er mögulegt að afránsþrýstingur hjá öðrum fuglum sem nýta svæðið geti aukist. Skipulagsstofnun telur því að áhrif á fuglalíf m.t.t. þess valkostar að losa frárennsli beint til sjávar geti mögulega verið nokkuð neikvæð en staðbundin.

Skipulagsstofnun telur mikilvægt að lýsing frá starseminni sé skermuð vel af til þess að draga úr líkum á að lundapysjur sæki inn á svæðið á haustin þegar þeir fljúga úr hreiðrum. Varðandi áhrif fráveitu og úrgangs á viðtaka frá frárennsli eldisstöðvarinnar í Viðlagafjöru þá mun hreinsibúnaður sía út fast efni en næringarefni í uppleystu formi koma til með að berast með frárennsli úr viðtakatjörn eða til sjávar um frárennslislögn. Magn fráveituvatns verður hlutfallslega lítið miðað við rúmmál þess viðtaka sem um ræðir, sem í þessu tilfelli er straumþungt haf og því má búast við að þynning verði mikil. Með hliðsjón af áformum framkvæmdaraðila telur Skipulagsstofnun að áhrif frárennslis á viðtakann/sjó og lífríki fjöru séu ekki líkleg til að verða veruleg, óháð valkostum.

Fyrirhugaðar framkvæmdir munu, að mati Skipulagsstofnunar, ekki hafa veruleg áhrif á eldhraun og rýra verndargildi svo framarlega sem staðið verði þannig að verki að hrauninu verði ekki raskað meira en þegar er orðið. Varðandi áhrif af grunnvatnsvinnslu, liggur fyrir að berggrunnurinn í efsta hluta grunnvatnskerfisins á Heimaey er vel vatnsleiðandi og að sjór á greiða leið inn undir land. Sjávarfalla gætir í efra grunnvatnskerfinu alls staðar á Heimaey og er vatnið nærri grunnvatnsborði ísalt og lítið sem ekkert ferskvatnslag til staðar. Skv. framlögðum gögnum verður endurnýjun jarðsjávar greið í stað þess vatns sem dælt verður upp. Lögð er áhersla á að sett verði ákvæði um vöktun og eftirlit með nýtingu jarðsjávarins.

Einhverrar ólyktar kann að gæta frá starfsemi eldisins í Viðlagafjöru sem og við dreifingu mykjunnar en óþægindi af völdum hennar verða staðbundin og skammvinn. Leyfisveitingar og skilyrði Skipulagsstofnun telur að í nýtingarleyfi þurfi að setja skilyrði um áfangaskiptingu grunnvatnsvinnslu sem og vöktun og viðbrögð ef vöktun leiðir í ljós víðtækari áhrif en gert hafi verið ráð fyrir. 15 Skipulagsstofnun telur mikilvægt að gengið verði úr skugga um að sjór og lífríki fjöru verði ekki fyrir neikvæðum áhrifum af völdum fráveitu og því þurfi að setja skilyrði í starfsleyfi um reglubundið eftirlit með virkni hreinsibúnaðar, losun mengunarefna og ástandi viðtaka.

Skipulagsstofnun telur að setja verði skilyrði í framkvæmda- og byggingarleyfi um vandaða hönnun mannvirkja, umhverfismótun og góðan frágang lóðar þar sem slík atriði eru líkleg til að draga mjög úr ásýndaráhrifum framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun telur að tilefni er til að vakta áhrif eldisins á fuglalíf í Viðlagafjöru og nágrenni og að ástæða er til að kveða á um slíkt í starfsleyfi

Álit Skipulagsstofnunar og umhverfismatsskýrsla framkvæmdaraðila er aðgengileg hér.

 

Deila: