Skötuselur í karrý og kókoshnetumjólk

Deila:

Svona rétt fyrir jólin er kannski gott að hafa mat frábrugðinn því sem tíðkast yfir hátíðirnar. Fyrir þá, sem eru bæði sólgnir í fisk og karrý á austurlenskan máta, er þessi uppskrift alveg kjörin. Það er rétt eins og maður sé kominn austur til Bali, þegar maður bragðar á þessum yndislega rétti. Hann er ekki bara bragðgóður, hann er hollur og hefur yfir sér ævintýralegan blæ. Bara að lygna aftur augunum, smjatta smávegis og láta sig dreyma og þá er rétt eins og eldhúsið, eða borðstofan sé ekki á köldum klaka, heldur frábært veitingahús til dæmis í Ubut eða Kuta á Bali. Grænir hrísgrjónaakrar á aðra hönd og á hina gullin sólarströnd. Yndislegt fyrir elskendur á öllum aldri, ekki satt?

Innihald:

  • 2-3 msk. ólífuolía
  • 1 laukur, saxaður
  • 800g skötuselur sneiddur í hæfilega bita
  • 3-4 hvítlauksrif, marin
  • 1 tsk. ferskur engifer, saxaður smátt
  • 2 tsk. kóríanderduft
  • 1 dós kókóshnetumjólk, 330 ml.
  • 1 ½ bolli rifnar gulrætur
  • 1-3 msk. rautt karrý mauk eftir smekk, einnig má nota karrýduft
  • 1 tsk salt
  • ½ tsk. nýmalaður svartur pipar
  • Um það bil 3 bollar af fersku spínati
  • 1 msk. ferskur límónusafi
  • 1-2 msk. púðursykur
  • ¼ bolli fersk basilíka

Aðferð:

  1. Svissið laukinn í olíunni á stórri pönnu á miðlungshita þar til hann er orðinn mjúkur.
  2. Bætið hvítlauk, kóríander og engifer út á og látið malla í mínútu.
  3. Bætið kókoshnetumjólkinni, gulrótunum, karrýmaukinu, salti og pipar út á. Lækkið hitann og látið malla í um 5 mínútur.
  4. Bætið spínatinu og límónusafanum út í og látið spínatið mýkjast. Bragðið til með púðursykri, karrý, salti og pipar.
  5. Setjið skötuselsbitana út í og látið malla í 5 mínútur. Hrærið varlega af og til.
  6. Stráið saxaðri basilíku yfir.
  7. Berið fram með úrvals hrísgrjónum og naanbrauði að eigin vali.

 

Deila: