-->

Skrifræði kemur í veg fyrir nýja starfsemi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. apríl 2012 um að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Það er mat Landssambands fiskeldisstöðva að málið hafi tafist fram úr hófi og Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi með afgreiðslutíma sínum farið út fyrir ramma um góða stjórnsýslu í þessu máli og að ákvörðunin orki tvímælis.

Frá þessu er sagt á heimasíðu Landssambands fiskeldisstöðva. Þar segir ennfremur: „Það tók úrskurðarnefndina tæpa 14 mánuði að komast að þessari niðurstöðu. Sá seinagangur er óásættanlegur fyrir greinina og hefur valdið umsækjanda óþarflegum töfum og kostnaði en einnig óvissu um framgang málsins.
Landssamband fiskeldisstöðva er uggandi ef almenn regla í stjórnsýslu þróast áfram með hliðstæðum hætti. Skipulagsstofnun hafði komist að niðurstöðu og er rökstuðningur úrskurðarnefndarinnar rýr en einnig hefur af hálfu umsækjanda þegar verið brugðist við smávægilegum athugasemdum sem að úrskurðurinn byggir að hluta til á án þess að tekið sé tillit til þess.
Landssamband fiskeldisstöðva mótmæla harðlega málsmeðferð og úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 43/2012. Ef málefni þeirra sem reyna að byggja upp atvinnu á Íslandi á sviði fiskeldis verða áfram með þessum hætti er augljóst að hægt er að tefja og koma í veg fyrir alla nýja starfsemi með skrifræði í stjórnkerfinu. Verst er þó að horfa upp á þegar opinberir aðilar setja hver ofan í annan á kostnað atvinnuuppbyggingar. Landssamband fiskeldisstöðva telur nauðsynlegt að málið verði endurskoðað af ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis.“