Skrýtið að þjóna til altaris

164
Deila:

Maður vikunnar nú er fæddur Gaflari en á báðar ættir að rekja norður. Hann býr á Eskifirði en vinnur á Seyðisfirði. Hann hefur unnið við fiskimjölsiðnaðinn í áratugi og bræddi meðal annars bæði fisk og ál í Helguvík. Á hans tíma hefur fiskimjölsverksmiðjum á landinu fækkað úr 21 í 10, en afköstin hafa líklega aukist engu að síður.

Nafn:

Eggert Ólafur Einarsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur Gaflari, alinn upp í Ölfusi og Stykkishólmi. Báðar ættir að rekja norður.

Fjölskylduhagir?

Giftur Laufeyju S. Kristjánsdóttur og eigum við þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Ég er verksmiðjustjóri hjá Síldarvinnslunni á Seyðisfirði.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég hef unnið beint og óbeint við sjávarútveg frá 1981, eða upp úr fermingu.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er alltaf gaman þegar vel veiðist.

En það erfiðasta?

„Baráttan er vonlaus þegar miðin eru dauð.“

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það skrýtnast sem ég hef lent í í mínu starfi er að þjóna til altaris. Þá er það skrýtið að vera að bræða ál samhliða því að vera að framleiða mjöl og lýsi. Ég var verksmiðjustjóri í Helguvík í 21 ár en þar var álbræðsla sem hér Alur Álvinnsla. Síldarvinnslan var einn eigenda fyrirtækis þar var brætt ál  fyrir Alcan og Norðurál.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þegar maður eldist má segja að þeir séu allir fallnir frá, en af þeim sem ég hef unnið með eða fyrir mætti nefna Skarphéðinn Óskarsson frá Haukabrekku, Magnús Jónsson, Vesturbotni og Aðalstein Jónsson (Alli ríka). Allt voru þetta menn með sterkar skoðanir og oft á undan sinni samtíð.

Hver eru áhugamál þín?

Það eru bílar, vélar og tæki.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lambakótelettur í raspi.

Hvert færir þú í draumfríið?

Bara ferðast innanlands.

 

 

 

Deila: