Slógu Íslandsmet í domino með síldartunnum

Deila:

Tæknin tekur smámsaman völdin í fiskvinnslunni og leysir mannshöndina af hólmi í töluverðum mæli. En tæknin sem slík stjórnar engu, nema henni sé stjórnað og þar þarf að standa vel að verki. Maður vikunnar nú er Ómar Enoksson, tækniþróunarstjóri hjá Vísi hf. Í Grindavík. Við heimsókn í frystihúsið hjá Vísi er ekki annað að sjá en Ómari og hans mönnum hafi tekist ansi vel að þróa tæknina til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki.

Nafn?
Ómar Enoksson.

Hvaðan ertu?
Grindavík.

Fjölskylduhagir?

Giftur Klöru Bjarnadóttur og eigum við 3 börn. Bjarni Tristan 20 ára, Ísabella Nótt 16 ára og Brynjar Dagur 9 ára.

Hvar starfar þú núna?

Hjá Vísir hf. sem tækniþróunarstjóri.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Árið 1986 þá 13 ára gamall hjá Vísir hf.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn.

En það erfiðasta?

Það er ekkert erfitt en verkefnin geta verið misjafnlega krefjandi.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Til dæmis á einni síldarvertíðinni á Djúpavogi þegar við slógum Íslandsmet í domino.
Þá rakst lyftari í stafla af fullum síldartunnum sem féllu allar til jarðar eins og dominokubbar.
Í staflanum voru um 2.000 tunnur.
Við héldum að við hefðum náð að tína upp allar tunnurnar, bæði af bryggjunni og uppúr höfninni en það reyndist ekki rétt því nokkrum árum seinna fundust nokkrar tunnur á hafsbotni. Við sóttum þær og unnum úr þeim gómsæta síld.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Karl Jónsson, snillingur og góður vinur frá Djúpavogi.

Hver eru áhugamál þín?

Útivera og ferðalög.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Lambakjöt og sjávarmeti.

Hvert færir þú í draumfríið?

Í skemmtisiglingu með konunni.

Deila: