Smá vertíðatstemning að komast í veiðina

110
Deila:

„Við erum komnir á Selvogsbankann eftir millilöndun í Reykjavík. Hér er kaldafýla en góður afli, þorskur, ýsa og ufsi og ég er ekki frá því að það sé að komast smá vertíðarstemning í veiðina,” sagði Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri á Höfrungi III AK, er rætt var við hann af heimasíðu Brims um hádegisbilið í gær.

Höfrungur III hefur verið að veiðum undan Suðvesturlandi og segir Arnar Haukur að aflinn fyrri hluta veiðiferðarinnar aðallega hafa verið gullkarfa, ufsa og djúpkarfa.

,,Við fórum svo inn til Reykjavíkur þar sem millilöndun var á mánudag. Aflinn var um 550 tonn,” segir Arnar Haukur en í máli hans kemur fram að öllum öryggisatriðum hafi verið fylgt í þaula til að draga úr líkunum á að COVID 19 veiran kæmist um borð.

,,Við lokuðum okkur af, fórum ekki einu sinni út á dekk, hittum ekki einn einasta utanaðkomandi mann og svo voru allar birgðir, sem við tókum, sprittaðar í bak og fyrir. Við viljum ekki fá þessa veiruskömm um borð og ég er viss um að öryggisaðgerðir verða ekki síðri þegar túrnum lýkur þann 7. apríl nk. Þá kemur ný áhöfn um borð.”

Að sögn skipstjórans hefur afli verið góður síðustu vikur og tíðarfar hefur verið skaplegt.

,,Ég er ekki að segja að veðið hafi verið gott. Það hefur lengst af verið kaldafýla og svo höfum við fengið brælur þess á milli. Nú eru 20 metrar á sekúndu og það veldur okkur ekki vandræðum. Öðru máli gegndi um illviðrin sem voru algeng í vetur,” segir Arnar Haukur Ævarsson.

Deila: