Smábátamenn vilja banna loðnuveiðar í flottroll

184
Deila:

Á nánast öllum aðalfundum svæðisfélaga LS sem haldnir voru á tímabilinu 13. september til 7. október sl. var rætt um veiðar á loðnu.  Þátttakendur í umræðunni telja að þessi skammlífi fiskur verði okkur ekki sú búbót í framtíðinni ef áfram verði haldið að beita flottrolli á hann.  Fjallað er um þetta á heimasíðu LS:

„Vakin er athygli á að loðnan er ein mikilvægasta fæða þorsksins þannig að fara verður varlega og ganga ekki of nærri loðnustofninum.  Nauðsynlegt er að meta hversu mikið drepst af loðnu við veiðar með flottrolli á móti því að nota nót.  Útfrá þeim upplýsingum er eðlilegt að það reiknist inn í afla til aflamarks hjá skipum sem nota flottroll við loðnuveiðar.

Allt frá aldamótum þegar heimilað var í tilraunaskyni að nota flottroll við veiðar á loðnu hefur vísitala ungloðnu ekki náð sér á strik nema að undangenginni friðun.  Nú hefur loðnan haft frið fyrir flottrollinu í á þriðja ár.  Það er því ekki úr lausu lofti gripið að álíta hið mikla magn sem Hafrannsóknastofnun mælir nú eigi þar sinn þátt.“

Samþykkt aðalfundar LS um loðnuveiðar – flottroll

Aðalfundur LS skorar á sjávarútvegsráðherra að heimila ekki veiðar með flottrolli á komandi loðnuvertíð.   

Greinargerð:

„Allt bendir til að við Íslendingar fáum stóra gjöf, þ.e. myndarlegan loðnukvóta.  Við slíkar fréttir er rétt líta um öxl.

Við höfum ekki veitt með flottrolli, í tvö til þrjú ár og eru áhrif þess þegar komin fram.  Bent skal á stærsta stofn loðnu í áratugi og grásleppu þar sem stofninn hefur tvöfaldast.   

Margt bendir til að veiðar með flottrolli hafi komið í veg fyrir að ungloðna hafi náð að lifa auk þess sem grásleppan hafi ekki náð sér á strik.  

Það er tilraunarinnar virði að veiða loðnu, eingöngu í nót og sjá til hvort við náum að verja þessa stofna.  Mikið er í húfi fyrir þjóðina að vel takist til, milljarða spursmál.   

Tilraunin gæti reynst með þeim stærstu í sögu fiskveiða, við Ísland.

Stórútgerðin sem hefur loðnukvótann, er vel í stakk búin til að nota nót við veiðarnar. Það er skylda okkar hverju sinni, að nýta fiskimiðin með ábyrgum hætti, þannig að sem mestur arður náist í náinni framtíð. Höfum í huga að við eigum ekki fiskinn í sjónum. Við erum aðeins með nýtingarrétt á honum.“

Deila: