Smjörsteikt rauðspretta

310
Deila:

Rauðspretta er sérlega góður matfiskur með alveg einstöku bragði. Hana má elda á fjölmarga vegu en að þessu sinni leituðum við inn á vefsíðu læknisins í eldhúsinu, en þar er að finna mikinn fjölda mjög góðra uppskrifta að fiski.
”A la Meuniere” þýðir að hætti konu malarans, sem byggir á því að velta hráefnum upp úr hveiti. Þetta er lygilega einfaldur réttur – og þegar maður er að vinna með ferskt hráefni þarf ekki að flækja hlutina. Þetta er einföld leið til að fá það besta út úr góðu hráefni – fiski, smjör, kapers, sítrónusafa og steinselju. Einfaldara getur það ekki verið, segir læknirinn í eldhúsinu. Uppskriftin er fyrir 6.

Innihald:

6 stór rauðsprettuflök
100 g smjör
1 bolli hveiti
Salt og pipar

300 gr smjör
6 msk kapers
Safi úr 3 sítrónum
1 sítróna
3 msk fersk steinselja

Aðferð:

Hellið hveitinu á disk, saltið og piprið ríkulega. Skolið og þurrkið fiskinn og veltið upp úr hveitinu.

Bræðið smjör á pönnu og þegar það hefur brúnast steikið þið fiskinn í tvær mínútur á hvorri hlið, roðið upp fyrst og snúið svo fiskinum varlega yfir þannig að holdhliðin snúi upp.
Ausið smjörinu yfir fiskinn þannig að hann verði stökkur og girnilegur. Setjið fiskinn á disk eða inn í 50 gráðu heitan forhitaðan ofn.

Hreinsið pönnuna og bræðið afganginn af smjörinu á pönnunni.
Þegar smjörið er bráðið og brúnað, bætið þið kapersi á pönnuna og steikið í eina mínútu.
Bætið sítrónusafa úr þremur sítrónum saman við, ásamt steinseljunni og hitið í gegn í 30 sekúndur.
Ausið smjörinu yfir fiskinn. Skreytið með steinselju og ferskum sítrónusneiðum.
Gott væri að hafa nýjar soðnar kartöflur með þessum góða rétti og ferskt salat að eigin vali.

 

Deila: