Sneisafullar Eyjar

127
Deila:

Báðar Eyjarnar, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu sneisafullar til löndunar í heimahöfn í gærmorgun. Aflinn var mest ýsa. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Birgis Þórs Sverrissonar skipstjóra á Vestmannaey og spurði hvar skipin hefðu verið að fiska.

„Við og Bergey fylgdumst að að mestu leyti í þessum túr eins og reyndar oft áður. Við byrjuðum á Víkinni og tókum þar eitt hol en þar var lítið að hafa. Síðan tókum við hol út af Ingólfshöfða og þar var sama sagan. Þá var haldið alla leið austur á Breiðdalsgrunn. Bergey fór beint þangað en við tókum eitt ufsahol á Lúlla og Lovísu á leiðinni. Það var rólegt fiskiríið á Breiðdalsgrunni og þá var haldið til baka. Við reyndum fyrir okkur í Sláturhúsinu út af Mýrum og lentum þar í hörku ýsuveiði og fylltum skipin. Aflinn í túrnum var því mest ýsa og smotterí af þorski og ufsa,“ segir Birgir Þór.

Bæði Bergey og Vestmannaey munu halda til veiða á ný í dag og þá verður stefnan tekin austur fyrir land. Að sögn Birgis Þórs er gert ráð fyrir að fiskað verði fyrir austan á næstunni og þá verði væntanlega landað í Neskaupstað eða á Seyðisfirði.
Á myndinni er Bergey VE að toga á Víkinni. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

 

Deila: