-->

Snýst allt um rétta hugarfarið

Maður vikunnar þennan föstudaginn er Hríseyingur. Hún var þrettán ára þegar hún fór að beita línu í eynni, en starfar nú í söludeild Samherja, Icefresh Seafood. Hana langar til Fiji-Eyja og Svalbarða.

Nafn:

Unnur Inga Kristinsdóttir.

Hvaðan ertu?

Hrísey.

Fjölskylduhagir?

Gift, eitt barn og hundur.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa í söludeild Samherja, Icefresh Seafood.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var 13 ára þegar ég byrjaði að fikta við að beita línu heima í Hrísey.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Úff, þetta er allt svo skemmtilegt, en ætli það sé ekki að fá að starfa með frábæru fólki í hátæknilegum sjávarútvegi þar sem hraðinn er mikill og fjölbreytileikinn. Í mínu starfi getur ýmislegt óvænt komið upp sem  kallar á að maður þarf að vera á tánum og hugsa í lausnum til að m.a. bjarga verðmætum, þetta getur verið afar mikið púsluspil sem mér finnst mjög skemmtilegt.

En það erfiðasta?

Það er ekkert erfitt beint, snýst allt um rétta hugarfarið, en það getur verið krefjandi og stressandi að starfa í sjávarútvegi vegna verðmætanna sem eru í húfi.  

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Mér dettur helst í hug þegar ég fór 3 túra á sjó á togaranum Bjarti NK 16. Þetta var skrítin tilfinning að ganga um borð í skip og vita í raun ekkert hvað beið þín og eins og algengt er bara karlmenn um borð. Þetta gekk þó allt vel og áhöfnin tók mjög vel á móti mér og fékk að takast á við mörg fjölbreytt verkefni. Það viðraði heldur illa í fyrsta túrnum sem gerði það að verkum að ég var sjóveik meira og minna allan túrinn. Einn laugardaginn kom ég niður í matsal og þar var saltfiskur á borðum eins og venjan var víst þarna um borð. Kannski ekki beint það fyrsta á listanum sem mann langar í þegar maður er sjóveikur, en Hálfdan skipstjóri gekk alveg fram af mér þegar hann gluðaði lýsi yfir fiskinn í þokkabót! Þetta situr fast í minningunni  og hugsa alltaf um þetta þegar ég borða saltfisk.

 

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru margir skrautlegir í gegnum tíðina, en ef ég þarf að nefna einhverja þá myndi ég segja að það væri Unnar Númi Almarsson og Siguróli Björgvin Teitsson. Get ekki gert upp á milli þeirra, Team Beitningaskurður var það sem gerði beitninguna skemmtilega og eftirminnilega.

Hver eru áhugamál þín?

Ætli það sé ekki fyrst og fremst að ferðast um landið með fjölskyldu og vinum og njóta augnabliksins.  

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Þessa dagana myndi segja að sé nautalund með parmesan osti, góðu salati og úrvals ólífuolíu. Annars er það heimatilbúna pizzan sem stendur alltaf fyrir sínu.

Hvert færir þú í draumfríið?

Draumafríið er til Fiji eyja og Svalbarða.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Formennsku LHG í ACGF lokið

Tveggja ára formennsku Landhelgisgæslu Íslands í samtökum strandgæslna á norðurslóðum lauk á fjarfundi á föstudag. Strandgæslu...

thumbnail
hover

Arctic Fish flytur í gamla Pólshúsið

Arctic Fish ehf. hefur tekið allt húsnæði að Sindragötu 10 á leigu til næstu ára. Fyrirtækið mun flytja þangað skrifstofur sín...

thumbnail
hover

LS semur við Morenot

Landssamband smábátaeigenda hefur gert samning við Morenot (Sjóvélar) um afslátt til félagsmanna á vörum í netverslun fyrirtækis...