Sóknarfæri í fiskeldi

69
Deila:

„Fiskeldi er að gera sig gildandi sem öflug og vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Framleiðslan í fiskeldi hér á landi í fyrra nam um 34.000 tonnum og velti 25 milljörðum króna og náði fiskeldið að skila tæpum 10% af útflutningsverðmæti íslensks sjávarútvegs. Í útgáfu Sóknarfæris að þessu sinni er fiskeldi burðarefni umfjöllunar blaðsins og víða komið við en þegar litið er yfir sviðið er fjölbreytni í fiskeldinu greinileg. Við höfum sjóeldi, landeldi, vaxandi þjónustu við fiskeldið, vinnslur, afurðasölu, flutninga og þannig mætti áfram telja.“

Svo segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Sóknarfæris í leiðara nýútkomins Sóknarfæris. Blaðið er helgað fiskeldi að þessu sinni, en að auki er þar að banda að finna fjölbreytilega umfjöllun um hin ýmsu svið sjávarútvegsins.

„Hvert beint starf í fiskeldi skilar öðru í afleiddum störfum, jafnvel gott betur en einu starfi. Áhrifin ná því talsvert út fyrir eldisfyrirtækin sjálf. Við höfum áður séð fiskeldi á Íslandi taka vaxtarkipp en líka niðursveiflu. Viðmælendur blaðsins virðast sammála um að margt bendi til að annað sé uppi á teningnum núna. Með tilkomu erlendrar fjárfestingar í íslensku fiskeldi hafi greinin orðið fjárhagslega sterkari, fjárfestum hafi fylgt mikil þekking á eldi, vinnslu, markaðsmálum og mörgum öðrum þáttum sem þurfi að vera til staðar til að ná árangri. Mikil gæðavitund sé í greininni og ekki síst ábyrgð í umhverfismálum.

Fiskeldið virðist óumdeilanlega komið til að vera. Spurningin er sú hvernig við ætlum að halda á spöðum í uppbyggingunni; hvernig vöxtur greinarinnar verður best studdur jafnframt því að greininni verði búið umhverfi leikreglna og fyrirsjáanleika til framtíðar. En flestir geta líkast til verið sammála um að nýjum stoðum í atvinnuuppbyggingu og gjaldeyrissköpun beri að fagna,“ segir Jóhann Ólafur ennfremur í leiðaranum.

Sóknarfæri er dreift með Íslandspósti til allra fyrirtækja á landinu.

Deila: