-->

Sólberg með um 2.500 tonn af þorski úr Barentshafi

Frystitogarinn Sólberg ÓF hefur nú sótt ríflega 2.500 tonn af þorski auk meðafla í öðrum tegundum í Barentshafið. Það hefur þar með lokið kvóta sínum innan lögsögu Noregs, þar tekin voru 1.500 tonn og sömuleiðis innan rússnesku lögsögunnar þar sem tekin voru 1.080 tonn. Þá hefur Örfirisey sótt kvóta sinn í norskri lögsögu, sem er 1.163 tonn af þorski samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu.

Þorskkvóti okkar innan norsku lögsögunnar er nú tæplega 2.700 tonn og standa eftir af honum 85 tonn. Það eru eingöngu Sólberg og Örfirisey stundaveiðar þar á þessu ári, en heimildir annarra skipa hafa verið fluttar yfir á þessi tvö skip.

Í fyrra var kvótinn í norsku lögsögunni tæplega 5.600 tonn og náðist hann að mestu leyti. Sex skip sóttu þá afla á þessar slóðir. Þrjú þeirra fóru yfir þúsund tonn. Sólberg var með mest, tæplega 1.500 tonn, Kleifaberg var með tæp 1.100 tonn og Örfirisey með rétt rúm 1.000 tonn.

Skýringin á því hve lítill þorskkvóti okkar í norsku lögsögunni er nú, er sú að engin loðnuveiði var við Ísland, hvorki í ár né í fyrra. Heimildir okkar til þorskveiða innan lögsögu Noregs í Barentshafi byggjast að hluta til á því að Norðmenn fái loðnukvóta við Ísland á móti. Fái Norðmenn enga loðnu minnkar þorskvóti okkar innan lögsögu þeirra.

Þorskveiðiheimildir okkar í Rússasjó eru nú samtals tæplega 5.700 tonn. Úthlutun samkvæmt Smugusamningunum svokölluðu er 3.366 tonn, en til viðbótar koma kaup á heimildum til veiða á 2.321 tonni af þorski auk meðafla.

Eins og áður sagði er Sólbergið eina skipið sem landað hefur afla úr Rússasjónum samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, en eftir færslur heimilda milli skipa eru 5 skip skráð með veiðiheimildir þar. Hin skipin eru Blængur með 1.500 tonna kvóta, Örfirisey og Vigri með um 1.000 tonn og Arnar með tæplega 1.000 tonn.

Á síðasta ári sóttu sex íslensk skip tæplega 5.600 tonn af þorski í Rússasjóinn. Sólberg var með mest, 1.200 tonn, Blængur kom næst með 1.100 tonn, þá Örfirisey með 1.050, Vigri með 900 tonn, Kleifaberg 770 tonn og Arnar með 490 tonn.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Landaði 927 tonnum af rækju

Rækjutogarinn Avataq, sem er í eigu Royal Greenland hefur enn eitt skiptið sett met í löndun í grænlenskri höfn. Hann landaði nýle...

thumbnail
hover

Úthafrækjuafli fari ekki yfir 5.136 tonn

Hafrannsóknastofnun leggur til í samræmi við varúðarsjónarmið að afli fiskveiðiárið 2020/2021 verði ekki meiri en 5.136 tonn fy...

thumbnail
hover

Unga fólkið fræðist um sjávarútveg

Nú í sumar var í fyrsta skipti í Reykjavík boðið upp á fræðslu um sjávarútveg fyrir 15- 16 ára ungmenni fædd árið 2004. Þet...