Sóley Sigurjóns dregin í land eftir eldsvoða

Deila:

Togarinn Múlaberg er nú með rækjutogarann Sóleyju Sigurjóns í togi og stefnir til hafnar. Allir skipverjar Sóleyjar eru heilir á húfi og aðstæður til björgunarstarfa með besta móti.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, sagði í samtali við fréttastofu RUV að Múlabergið og TF Líf hafi komið Sóleyju um miðnæturbil. Þar sem skipið er vélarvana og aðstæður allar góðar, hægviðri og lítill sjór, var ákveðið að Múlabergið tæki til við að draga Sóleyju í land. Tveir af átta skipverjum rækjutogarans voru hífðir um borð í TF Líf og eru þeir nú á leið til Akureyrar.

Eldurinn líklega slokknaður

Áhöfn skipsins ræsti slökkvikerfið í vélarrúminu um leið og eldsins varð vart og eldurinn er að öllum líkindum slokknaður, en þó er ekki hægt að útiloka að enn leynist einhverstaðar glæður neðan þilja. Því siglir Týr enn til móts við Sóleyju, segir Ásgeir, og er ætlunin að varðskipsmenn kanni aðstæður um borð í Sóleyju þegar skipin mætast. Björgunarskipinu Sigurvin, sem sent var af stað frá Siglufirði með tvo slökkviliðsmenn um borð, hefur verið snúið við.

 

Deila: