Spennandi að koma á nýjar slóðir

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni er skipstjóri sem fiskað hefur um árabil á norðlægum slóðum, við Austur-Kanada og síðan austur úr, við Svalbarða og mest í Barentshafinu. Fiskbollur frá Halldórsvík í Færeyjum eru í uppáhaldi hjá honum ásamt ýmsu öðru góðmeti.

Nafn:

Viktor Scheving Ingvarsson

Hvaðan ertu? 

Ég er fæddur í Hafnarfirði en uppalinn í Vestmannaeyjum, þannig að ég er að mestu Vestmannaeyingur. 

 Fjölskylduhagir? 

Konan mín er Eydna Fossádal, hún er Færeyingur, ég á þrjú börn með fyrri konu en eitt með Eydnu auk stjúpdóttur. 

Hvar starfar þú núna? 

Ég er skipstjóri á Merike og við fiskum að mestu leyti í Barentshafi, útgerðin er Reyktal.  

 Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg? 

Ég byrjaði 12 ára gamall að vinna í fiski, hef að mestu unnið við sjávarútveg síðan þá. 

 Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg? 

Ég hef í langan tíma unnið við úthafsveiðar, bæði við Kanada, austur og vestur Grænland, síðan hef ég unnið að mestu leyti í Barentshafi undanfarin ár, í Smugunni, Hopen dýpi, í kringum Svalbarða og í kantinum norðan við hann, nyrst hef ég séð 82°gráður. Mér hefur þótt spennandi að koma á nýjar slóðir og það hefur verið nóg af slíku hjá mér. Annars er starfið oftast skemmtilegt. 

 En það erfiðasta? 

Það er stundum erfitt að horfast í augu við vesen og vandræði, það er þannig til sjós að það er óhjákvæmilegt að lenda einhverntíman í tímabilum sem eru ekki eins góð og önnur, ekkert gengur upp, kannski mikið rifið og slitið, þá er gott að taka hlutunum af æðruleysi og ró. Það er samt eins og kallinn sagði „það er auðveldara um að tala en í að komast”. Þá er líka gott við þessar aðstæður að missa ekki bjartsýnina, eða eins og kerlingin sagði „minn tími mun koma”.   

 Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum? 

Ég veit það ekki, skipstjórar nálægt sjötugu segja mér að þeir séu enn að lenda í áður óþekktum atvikum, þess vegna eru þessir gömlu skápar enn eftirsóttir til sjós, reynsla þeirra er ómetanleg. Ég man nú í augnablikinu ekki eftir neinu sérstaklega skrítnu sem vert er að segja frá.    

 Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn? 

Fyrir utan þá sem að komu mér á stað í stýrimannaskóla og leiddu mig svo inn í starfið þá er einn sem ég man eftir sem var einstakur. Hann notaði frítíma sinn um borð til að hekla og föndra, ef maður leit inn í klefann hans á labbi um ganginn þá hékk alskins föndur og óróar um allan klefa, í snjóbil þegar að fuglinn var ruglaður um allt dekk þá byrjaði hann á því þegar við hífðum að hreinsa dekkið af fugli svo þeir sköðuðust ekki þegar trollið kom inn á dekk, það þurfti ekki að segja honum þetta. Þetta var mikið góðmenni sem ég talaði reyndar lítið sem ekkert við því hann var erlendur og talaði ekki ensku, ég sá hinsvegar gleði í augunum þegar vel gekk og gott ef það var ekki uppörvun í augunum þegar við vorum í brasi. Mér leið alltaf vel að hafa þennan mann með mér.  

 Hver eru áhugamál þín? 

Það eru íþróttir og tónlist, ég hef líka svolítið gaman af því að skrifa, svo hef ég áhuga fyrir heimsmálunum og fylgist með af áhuga hvað er í gangi. 

 Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? 

Lambakótelettur, gellur, fiskibollur frá Halldórsvík í Færeyjum, svo klikkar lambahryggurinn ekki, voðalega verð ég svangur við þessa upptalningu. 

 Hvert færir þú í draumfríið? 

Mig langar til Kína, Afríku og kannski Balí. 

Deila: