-->

Stærsta eldi á Senegalflúru í heimi rís á Reykjanesi

Matfiskeldi á flatfiskinum Senegalflúru er að hefjast síðar í sumar í eldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Í fyrsta áfanga, sem mun gefa af sér fisk í markaðsstærð á næsta ári, er gert ráð fyrir 500 tonna framleiðslu. Stöðin verður þá sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, en nú skilar heildareldi á þessari flúru undir 500 tonnum á ári. Í næsta áfanga starfseminnar verða afköstin aukin í um 2.000 tonn á ári, en áætlað er að hann verði að fullu kominn í gagnið 2017. Stolt Sea Farm er þegar stærsti framleiðandi á Senegalflúru í heiminum og rekur tvær eldisstöðvar, aðra í Frakklandi og hina á Spáni. Framleiðsla þeirra nú er 300 til 350 tonn á ári.
Þetta kemur fram í spjalli við Pál Þorbjörnsson, fiskeldisfræðing, sem mun stýra eldinu þegar það hefst í sumar. Þá verða fluttar inn lirfur úr klakstöð Stolt Sea á Spáni og fiskurinn alinn í markaðsstærð, sem er um 350 grömm. Henni verður náð á næsta ári. Páll segir að flúran sé góður matfiskur, nokkuð lík sólkola. Hún sé matreidd í heilu lagi með roði og beinum og einn fiskur sé hæfilegur skammtur á mann. Hann vill ekki nefna hvert markaðsverð á flúrunni sé, enda sveiflist það eftir framboði og eftirspurn. Þó þetta sé mikil aukning á eldi, eða um tvöföldun á heimsframboði, sé einnig töluvert framboð úr veiðum og áhrif á markaðinn því ekki eins mikil og í fyrstu mætti ætla. Þá sé markaður fyrir flatfiska af þessu tagi góður, einkum í sunnanverðri Evrópu, en fiskurinn mun fara á markað í Frakkland, Spáni og Portúgal. Markaðsverð á Senegalflúru er heldur hærra en á sandhverfu sem er eftirsóttur flatfiskur.
Senegalflúran er hlýsjávarfiskur og er kjörhiti fyrir hana í eldi um 20 gráður. Páll segir að gríðarlega mikið þurfi af vatni fyrir eldið. Það ráði úrslitum að þeir fái kælisjó úr Reykjanesvirkjun í eldið. Sjórinn sé tekinn úr borholum sem gefi átta stiga heitan sjó, en eftir kælingu á hverflum virkjunarinnar rennur hann um 35 gráðu heitur frá virkjuninni. „Við erum svo einnig með eigin borholur til að sækja sjó til blöndunar í kælivatnið og munum nota þrjú til fjögur tonn á sekúndu, þegar eldið verður komið í fullan gang með 2.000 tonna framleiðslu,“ segir Páll.
Páll hefur kynnt sér eldið hjá Stolt Sea á Spáni og þekkir það vel. En hvernig er þessi fiskur í eldi?
„Flúran er erfiður eldisfiskur, en Stolt Sea hefur 13 til 14 ára reynslu af rannsóknum og eldi á Senegalflúru og hefur breytt ýmsum þáttum í eldinu og vinnur að breytingu á öðrum til að draga úr erfiðleikunum, sem allir eru yfirstíganlegir. Flúran étur sérframleitt fóður eftir þroskastigum sem framleitt er af Stolt Sea og byggir framleiðslan meðal annars á rannsóknum fyrri ára.
Framkvæmdir hófust í apríl í fyrra og hafa gengið vel að sögn Páls. Miklar byggingar munu hýsa eldið og vatnsmiðlun þess. Þær eru um 20.000 fermetrar í fyrsta áfanga en verða um 70.000 fermetar þegar seinni áfanga verður lokið. Í fyrstu munu um 20 manns vinna við eldið. „Seinna meir er svo fyrirhugað að vera með eigin klakfisk og þá verður allt ferlið hér. Meðan við erum að byggja upp okkar klakstofn, munum við fá lirfur að utan,“ segir Páll Þorbjörnsson.
Stolt Sea er alþjóðlegt fyrirtæki og er fyrir utan Senegalflúruna með eldi á sandhverfi í Evrópu og framleiðslu á styrjukavíar í Bandaríkjunum. Stöðin á Reykjanesi verður ellefta eldisstöðin sem Stolt Sea verður með í Evrópu