-->

Stálskip selja skip og kvóta

Útgerðarfélagið Stálskip hefur ákveðið að selja allan kvóta, auk þess sem skip þess verður selt til Rússlands. Framvegis mun fyrirtækið einbeita sér að fjárfestingum í fasteignum og rekstri innanlands. Frá þessu er greint á mbl.is Í tilkynningunni segir að Guðrún og Ágúst, sem eru komin á níræðisaldur, hafi verið vakin og sofin yfir rekstrinum alla tíð en hafi undanfarin misseri leitað leiða til að draga úr erli og álagi og varð eina færa niðurstaðan sú, eftir samningaumleitan síðustu mánaða, að selja Þór HF 4 til Rússlands og veiðiheimildir í íslenskri lögsögu til Síldarvinnslunnar og Gjögurs og úthafsheimildir til Útgerðarfélags Akureyringa.

Stálskip er skuldlaust félag sem hefur keypt yfirgnæfandi hluta veiðiheimilda og hefur vegna fjárhagslegs styrks getað greitt hærra verð fyrir veiðiheimildir en önnur félög.
Í tilkynningunni segir að þessi staðreynd hafi mikil áhrif á að ekki hefur reynst mögulegt að selja veiðiheimildir með skipinu. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sem flest eru skuldsett, verða að bæta við veiðiheimildum á þau skip sem þegar eru gerð út til að auka hagræðingu svo hægt sé að standa undir kaupum á veiðiheimildum, kostnaði vegna veiðigjalda og annarra útgjaldaliða.
Skrifstofa Stálskips mun eftir sem áður verða starfrækt í Hafnarfirði og munu stöðugildi verða fjögur. Stjórn Stálskips verður óbreytt og Guðrún mun áfram starfa sem framkvæmdastjóri og lítur hún nýtt hlutverk félagsins björtum augum enda mun félagið eiga trygga framtíð með þessum hætti, segir í tilkynningunni.
Samkvæmt frétt á mbl.is í morgun er Hafnarfjarðarbær að láta lögfræðinga skoða hvort forkaupsréttur sveitarfélagsins hafi virkjast við sölu skips og aflaheimilda Stálskips ehf. úr bænum. „Von er á lögfræðiálitinu fljótlega eftir helgi, segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, í umfjöllun um söluna á Stálskipum og aflaheimildunum. Hún sagði að lög um stjórn fiskveiða gerðu ráð fyrir því að forkaupsréttur virkjaðist þegar skip með aflaheimildum væri selt úr einu sveitarfélagi til annars. Stálskip seldi skip sitt úr landi og aflaheimildirnar til þriggja kaupenda hér innanlands,“ segir á mbl.is