Starfsemi á nýju netaverkstæði að komast í fullan gang

225
Deila:

Starfsemi nýs og glæsilegs netaverkstæðis Hampiðjunnar í Neskaupstað er að komast í fullan gang, en vinna hófst í húsinu þann 23. janúar sl. Jón Einar Marteinsson, rekstrarstjóri Hampiðjunnar í Neskaupstað, segist í samtali á heimasíðu Hamiðjunnar, alsæll með nýju aðstöðuna og starfsemin fari svo sannarlega vel af stað. Nýja húsið er gríðarleg framför frá því gamla og mikil bylting í þjónustu Hampiðjunnar á Austurlandi.
,,Venus NS var fyrsta skipið sem kom með flottroll til viðgerðar hjá okkur á nýja verkstæðinu í lok febrúar. Síðustu dagana hafa skipin verið að koma af kolmunnamiðunum vestur af Írlandi og þar sem framundan er hlé í veiðunum, þangað til kolmunninn gengur inn í færeysku lögsöguna, hafa skipin nýtt tækifærið og​ komið með trollin í yfirferð hjá okkur. Bjarni Ólafsson AK kom með troll til okkar í lok síðustu viku og er vinnu við það lokið. Þá liggur fyrir viðgerð á flottrollinu hjá Hoffelli SU og ekki ólíklegt að fleiri komi til okkar á næstunni.“
Jón Einar segir gaman að upplifa að trollvinnan sé núna orðin venjuleg vinna inni á gólfinu. Þannig var þetta ekki áður, þegar hluti af vinnunni fór fram úti á götu, með tilheyrandi óhagræði og kostnaði fyrir viðskiptavini. Mikill tími fór t.a.m. í að flytja trollin á bíl upp á veg og til baka og fleira mætti nefna.

,,Fyrir vikið ná starfsmenn nú að fara yfir fleiri troll og afkastageta okkar eykst. Þetta er því jákvæð framför fyrir báða aðila. Aðstöðumunurinn kemur einnig fram í því að núna erum við að vinna í framleiðslu á tveimur kolmunnapokum og getum einnig tekið á móti flottrollum til viðgerðar,“ segir Jón Einar en hann segir þetta alveg nýjan veruleika og mikla breytingu frá því sem áður var.

,Tækjabúnaður hefur reynst vel og eru sjómenn í skýjunum með aðstöðuna og hraða þjónustu við að koma með troll og taka þau um borð aftur. Nú leggja skipin einfaldlega með skutinn upp að bryggjunni fyrir framan verkstæðisdyrnar og við tökum trollin beint inn á gólf.  Það er mjög gaman að sjá þessar breytingar raungerast. Að við séum farin að nýta okkur möguleikana sem eru ávísun á aukna afkastagetu og aukna starfsemi,” segir Jón Einar en það eru ekki aðeins trollviðgerðirnar sem honum eru hugleiknar. Gjörbylting verður á þjónustu Gúmmíbátaþjónustunnar með tilkomu nýja hússins en skoðanir á bátum eru að hefjast í nýja húsnæðinu þessa dagana.
,,Aðstaða Gúmmíbátaþjónustunnar batnar til muna og hægt verður að bjóða upp á þjónustu, sem ekki var hægt áður. Í nýja húsinu  verður hægt að skoða niðurhífanlega björgunarbáta. Það eru björgunarbátar, sem eru blásnir upp um borð í skipunum, skipverjar fara í þá og þeir eru svo hífðir frá borði. Við skoðun þarf að hífa björgunarbátinn upp og skoða með þeirri þyngd sem í honum getur verið. Það munum við geta núna eftir flutningana og mun ég fljótlega óska eftir skoðunarleyfi vegna þessara báta,” segir Jón Einar Marteinsson

Deila: