-->

Státar af gullverðlaunum í kínverskum íþróttum

Maður vikunnar nú er Garðbæingur, en starfar sem sérfræðingur á gæða- og framleiðslusviði hjá rækjuvinnslunni Dögun á Sauðárkróki. Raspfiskurinn hennar mömmu er í uppáhaldi og í draumafríð langar hana að fara á framandi staði.

Nafn:

Herdís Ólína Hjörvarsdóttir.

Hvaðan ertu?

Garðabæ.

Fjölskylduhagir?

Ég er gift Þorsteini Guðmundsyni, betur þekktur sem Steini frá Finnbogastöðum. Við eigum yndislega dóttur saman sem er núna rúmlega árs gömul.

Hvar starfar þú núna?

Ég starfa sem sérfræðingur á gæða- og framleiðslusviði hjá rækjuvinnslunni Dögun á Sauðárkróki. Ég vinn náið með gæðastjóranum og sinni allskyns verkefnum sem snúa að gæðamálum og framleiðslu. Við meðal annars tæklum úttektir frá öllum þeim stöðlum sem við förum eftir til dæmis BRC, MSC, SMETA, MAST og stöðlum viðskiptavina.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Árið 2015 eftir að ég útskrifaðist með BSc í líffræði hjá HÍ og lauk sumarstarfi hjá Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn í Hornafirði að rannsaka lífið í og við ána Mígandi sem rennur í Skarðsfjörð. Ég elti fjölskylduna á Sauðárkrók þar til ég fyndi út hvað ég ætlaði að gera næst í lífinu. Hugsaði með mér að í versta falli fengi ég vinnu á línu í fiskvinnslunni. Ég fékk svo vinnu hjá Hólmfríði Sveinsdóttur á rannsóknarstofunni Iceprótein sem var þá í eigu FISK seafood. Eftir tæp 5 ár vildi ég breyta til, fá meiri áskorun og sótti um hjá Dögun.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilegasta er að vinna með góðu og skemmtilegu fólki. Svo eru öll þau tækifæri og áskoranir sem sjávarútvegurinn hefur að bjóða. Ég trúi því að framfarir í hverju sem maður leggur fyrir hendi veiti hamingju. En framfarir grundvallast af góðu samstarfi með skemmtilegu fólki.

En það erfiðasta?

Stórtækar stjórnunar breytingar og afleiðingar þeirra.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég er bundin trúnaði. 😊

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Eftirminnilegasti vinnufélagi var ekki beint vinnufélagi, heldur vann hann í byggingunni sem Náttúrustofa Suðausturlands var í. Hann var maður sem fór á eftirlaun þetta sumar, en var duglegur að heilsa upp á mann og alltaf tilbúinn að aðstoða. Hann var góður vinur. Hann hét Vífill Karlsson og því miður bráðkvaddur of snemma.

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin mín eru af ýmsum toga. Ég hef mjög gaman af myndlist og náttúrunni. Ég nýt þess að eiga góðar stundir með fjölskyldunni og fara í ferðalög. Ég á bæði hund og kött. Göngutúrarnir með hundinum eru mér lífsnauðsynlegir. Svo hef ég stundað kínverskar íþróttir Qi-gong og Thai-chi. Ég keppti í því fyrrnefnda á þremur mismunandi alþjóðlegum- og Evrópumótum og komið heim með gull í hvert skipti.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Raspfiskurinn hennar mömmu.

Hvert færir þú í draumfríið?

Eitthvert framandi.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

ISI tapaði 300 milljónum

Iceland Seafood International (ISI) tapaði 2,1 milljón evra á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 296 milljónum á gengi dagsins, að...

thumbnail
hover

Eimskip hagnast um 5 milljarða

Tekjur Eimskips á öðrum ársfjórðung námu 283,1 milljón evra sem er 34,1% aukning samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. Rek...

thumbnail
hover

Auknar rekstrartekjur Síldarvinnslunnar

„Reksturinn gekk vel á öðrum ársfjórðungi og var kolmunnaveiðin með besta móti. Framleiðsla í fiskimjölsverksmiðjum félagsin...