Stefna að 7.000 tonna laxeldi í Stöðvarfirði

220
Deila:

Fiskeldi Austfjarða hf. hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar vegna 7.000 tonna framleiðslu á laxi í Stöðvarfirði á vegum Fiskeldis Austfjarða hf. Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út burðaþolsmat fyrir Stöðvarfjörð upp á 7.000 tonna lífmassa, en auk þess hefur stofnunin birt áhættumat fyrir fjörðinn vegna hættu á erfðablöndun milli eldisfisks og náttúrulegra laxastofna.

Í samræmi við það mun Fiskeldi Austfjarða einvörðungu ala ófrjóan lax. Í áhættumati vegna erfðablöndunar er gert ráð fyrir að það sé endurskoðað reglulega. Komi til þess að endurskoðun leiði til þess að ala megi frjóan fisk í Stöðvarfirði, þá áskilur Fiskeldi Austfjarða sér rétt til að gera slíkt. Þetta umhverfismat er miðað við hver áhrif eldis á 7.000 tonnum af frjóum fiski er á umhverfið. Fiskeldi Austfjarða hefur þegar starfsemi í tveimur fjörðum, þ.e. Berufirði og Fáskrúðsfirði. Félagið hefur rekstrar- og starfsleyfi í báðum fjörðunum og er heimilt að ala 9.800 tonn af laxi í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.

„Umhverfisáhrif á framangreinda þætti eru metin auk þess að lagt er mat á samlegðaráhrif fyrirhugaðs sjókvíaeldis Fiskeldis Austfjarða og óskyldra rekstraraðila. Niðurstaðan er að áhrif á framkvæmdatíma eru talin verða tímabundin og óveruleg á flesta umhverfisþætti á meðan á rekstri stendur, en talsvert jákvæð á flesta þætti samfélags. Öll áhrif eru metin afturkræf. Rekstur fiskeldisins er hugsaður til þess tíma er nemur gildistíma starfs- og rekstrarleyfa og áhrif vara á meðan honum stendur,“ segir í skýrslunni.

Deila: