Steiktu hænsnafótaskinni var erfitt að koma niður

Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni byrjaði að vinna í fiski í Vogum á Vatnsleysuströnd 14 ára gömul. Nú er hún einn af sölustjórum HB Granda. Er meðal annars með uppsjávarafurðir, grásleppukavíar og þurrkaðar afurðir á sinni könnu. Henni finnst steikt hænsafótaskinn ekki gott.

Nafn?

Svanhildur Guðrún Leifsdóttir.

Hvaðan ertu?

Ólst upp í Vogum á Vatnsleysuströnd.

Fjölskylduhagir?

Gift Jóni Ármanni Arnoddssyni og á 2 börn, Kristinn Ásgeir 27 ára og Hjördísi Örnu 14 ára.
Hvar starfar þú núna?

Í dag starfa ég hjá HB Granda hf sem sölustjóri uppsjárvarafurða ásamt því að sjá um sölu á grásleppukavíar. Einnig er ég að sinna sölustjórnun fyrir Laugafisk sem HB Grandi hf. rekur ásamt Skinney Þinganesi hf og Nesfiski hf.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég hóf störf hjá Vogum hf. þegar ég var 14 ára.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er tvímælalaust fjölbreytnin sem felst í vertíðarbundnu framboði afurða ásamt frábærum viðskiptavinum um allan heim.

En það erfiðasta?

Það er ekkert sem stendur upp úr sem erfitt við íslenskan sjávarútveg, en það koma stundum álagstímar sem geta verið erfiðir, en á sama tíma eru það oft skemmtilegustu tímarnir.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það fyrsta sem mér dettur í hug eru hin fjölmörgu skipti sem ég hef setið með viðskiptavinum og notið góðs matar. Stundum hefur framandlegur matur verið á boðstólnum. Nú er ég ekki matvönd að neinu leyti, en steiktu hænsnafótaskinni var erfitt að koma niður.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt marga eftirminnilega vinnufélaga, verð þó að nefna hann Magnús Ingólfsson sem var yfirmaður minn þegar ég hóf störf hjá Vogum hf., hann er mér sérstaklega eftirminnilegur fyrir margar góðar sakir.

Hver eru áhugamál þín?

Ég hef starfað með Ladies Circle um 12 ára skeið og hef einstaklega gaman að því. Einnig sit ég í barna og unglingaráði Körfuboltadeildarinnar í Keflavík. Þar er alltaf mikið um að vera.  Ferðalög og framandi menning eru einnig mjög áhugaverð.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það er steiktur þorskur.

Hvert færir þú í draumfríið?

Draumafríinu yrði varið á mátulega heitum stað með frábærri strönd og góðri aðstöðu til hreyfingar.

 

 

Deila: