„Stjórnvaldið var í veiðiferð“

196
Deila:

Málflutningur í skaðabótamáli Samherja og Þorsteins Más Baldvinssonar gegn Seðlabanka Íslands fór fram í héraðsdómi í gær. Eftirfarandi frásögn og mynd er fengin úr Fréttablaðinu:

„Samherji fer fram á rúmlega 300 milljónir króna í skaða- og miskabætur frá Seðlabankanum bankanum fyrir þann málarekstur sem hófst með húsleit og haldlagningu gagna þann 27. mars árið 2012, en Samherji var sakaður um að brjóta gjaldeyrislög á þeim tímum, þegar ströng höft giltu. Málið fór til sérstaks saksóknara og voru gefnar út stjórnvaldssektir sem á endanum voru dæmdar ógildar árið 2018. Sektirnar voru endurgreiddar en Samherji fer nú fram á bætur vegna útlagðs kostnaðar og þess tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir.

Um helmingur kröfunnar er vegna reikninga fyrir vinnu fyrrverandi rannsóknarlögreglumannsins Jóns Óttars Ólafssonar, í gegnum fyrirtækin Juralis og PPP. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Seðlabankans, sagði hins vegar að samansafn þeirra reikninga sem lægju fyrir væru ekki fullnægjandi sem sönnunargagn í bótamáli. Þeir væru illa skýrðir, sumir fyrndir, sumir tvítekningar og sumir gætu tæplega tengst því máli sem til umfjöllunar væri, svo sem vegna starfa Jóns í Máritaníu. „Við vitum ekkert hvað þessi maður var að gera,“ sagði Jóhannes. Einnig bæri á tvítekningum á reikningum frá öðrum lögfræðistofum, en meiri upplýsingar væri hægt að sjá á þeim.

Samherji fer einnig fram á bætur vegna innri kostnaðar fyrirtækisins, svo sem vegna launagreiðslna á þeim degi sem húsleitin fór fram og vegna starfsloka fjármálastjórans Sigursteins Ingvarssonar, sem bar vitni í gær og sagðist hafa þurft að leita til sálfræðings og taka geðlyf, eftir ásakanir um fjármálamisferli. Jóhannes taldi hins vegar enga lagastoð fyrir bótagreiðslum vegna þessa kostnaðar.

Garðar Guðmundur Gíslason, lögmaður Samherja, reifaði málið frá upphafi. Hvernig að húsleitinni var staðið, aðkomu fjölmiðla sem mættir voru á staðinn fyrir húsleit og að Seðlabankinn hafi sent tilkynningu til rúmlega 600 miðla um heim allan. „Almenningur var fljótur að taka fyrirtækið og starfsmenn þess af lífi í kommentakerfunum,“ sagði hann. Fyrsta fréttin barst af málinu 21 mínútu eftir að húsleitin hófst. Hafi bankinn með þessu brotið þagnarskyldu og ekki farið vel með vald sitt. Vísaði hann í orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, frá árinu 2019, um að rökstuddur grunur hafi ekki legið fyrir um brot þegar húsleitin hafi verið gerð. „Stjórnvaldið var í veiðiferð,“ sagði Garðar.

Hafi bankinn ekki hætt málinu, þrátt fyrir álit ríkissaksóknara, leitað til lögfræðings úti í bæ og á endanum lagt á stjórnvaldssekt, sem síðan hafi verið dregin til baka. Málið hafi verið eitt stórt núll frá upphafi en um tíma hafi fyrirtækið og starfsmenn þess verið sakaðir um tæplega 80 milljarða króna brot. „Það var ekki lágt reitt til höggs.“

Jóhannes benti á að dómur hefði aldrei tekið efnislega afstöðu um þau mál sem Samherji var grunaður um innan bankans, svo sem málefni Kötlu Seafood og þau 55 milljarða viðskipti sem fóru þar fram á ákveðnu tímabili. Einnig að árangursleysi aðgerðanna leiði ekki sjálfkrafa til bótaskyldu og að enginn hafi verið handtekinn og engar eignir kyrrsettar. Hann bað dómara einnig að taka með í reikninginn þann tíma sem atburðirnir gerðust á. Landið var á kúpunni eftir hrunið og Seðlabankanum hafi verið falið að passa upp á að gjaldeyrir skilaði sér til landsins. Allir 20 stærstu útflytjendur landsins hafi verið til skoðunar hjá bankanum. „Þarna var fólk aðeins að vinna vinnuna sína,“ sagði hann.

Hvað fjölmiðla varðar benti hann á að þessir 600 erlendu miðlar væru í RSS-áskrift að fréttum bankans og að aldrei hafi verið sýnt fram á að upplýsingar til íslenskra miðla um húsleitina kæmu frá Seðlabankanum.

Samhliða málinu fór einnig fram meðferð í máli Þorsteins Más gegn Seðlabankanum vegna stjórnvaldssektar sem einnig var afturkölluð. En hann krefst 6,5 milljóna króna í skaða- og miskabætur vegna kostnaðar við málið og orðsporshnekkis. Þorsteinn var fyrsta vitnið sem kallað var til í gærmorgun og sagðist hann hafa verið hræddur um að missa fyrirtækið á þessum tíma. Fullyrðingar Seðlabankans hafi verið grófar og bitnað á orðspori fyrirtækisins gagnvart lánardrottnum og viðskiptavinum erlendis. Varð honum nokkuð heitt í hamsi þegar Jóhannes spurði hann út í þau viðskipti sem rannsóknin beindist að og skilaskyldum gjaldeyri. Þurfti Kjartan Bjarni Björgvinsson dómari að biðja menn að stilla sig.“

Deila: