Stoltur Svarfdælingur

Deila:

Maður vikunnar á kvótanum er gæðastjóri hjá Samherja á Dalvík. Hún byrjaði 12 ára í frystihúsi og salthúsi , en tók sér svo langt hlé áður en hún hóf vinnu hjá Samherja. Humar og spænskir fiskréttir eru í uppáhaldi hjá henni og hana langar til Santorini í Grikklandi.

Nafn?

Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir.

Hvaðan ertu?

Tungufelli í Svarfaðardal og segi með stolti að ég sé Svarfdælingur.

Fjölskylduhagir?

Er gift Sævari Frey Ingasyni varðstjóra í lögreglunni á Dalvík, eigum 4 uppkominn börn, Ómar Freyr, Elíngunn Rut, Arnar Ingi og Rebekka Rún og 3 af þessum 4 hafa gefið okkur 5 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Frystihúsi Samherja á Dalvík.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Þegar ég var 12 ára og þá var það frystihúsið og salthúsið, svo kom margra ára hlé en  hef verið samfellt frá 1999 í þessari vinnslu svo á þessu ári hef ég verið hér í 20 ár.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn, fullt af nýjum áskorunum og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.

En það erfiðasta?

Að hlusta á neikvæða umræðu um sjávarútveginn, hvernig hann er talaður niður og það virðingarleysi sem honum og okkur sem vinnum við hann er sýndur.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er nú margt, en ætli ég verði ekki að segja atvik sem komið hafa upp hjá úttektaraðilum án þess að fara nánar út í það.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Stórt er spurt, en klárlega Vilhjálmur Björnsson sem alltaf var kallaður Villi hlaup og hafði unnið hér í nærri hálfa öld þegar hann hætti. Við unnum saman í mörg ár í ungmennafélagsstörfum og svo í mörg ár hér. Góður vinnufélagi okkar sagði einu sinni við mig að við værum laglegt par og var þar að vísa til þess að við eyddum litlu minni tíma saman utan vinnu, svo fannst honum vera full mikil ferð á mér þegar ég færði mig milli svæða  því ættum við bæði að hafa viðurnefni: Villi hlaup og Ragga sprettur.

Hver eru áhugamál þín?

Það er svo margt, en fyrir utan samveru með stórfjölskyldunni þá eru það ferðalög innan og utanlands, allskonar handavinna, grúska í ættfræði, mataruppskriftir og svo nokkuð sem ég kemst ekkert í upp á síðkastið en það er dans og útreiðatúrar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Humar og spænskir fiskréttir.

Hvert færir þú í draumfríið?

Santorini Grikklandi.

 

Deila: