Stór og falleg loðna

Deila:

Uppsjávarskipið Svanur RE kom til hafnar á Vopnafirði nú um miðjan dag í gær með um 1.890 tonn af loðnu. Aflinn fékkst í fimm holum NA af Langanesi. Þetta er stór og falleg loðna, rúmlega 40 stykki í kílóinu, og algjörlega átulaus.

Að sögn Hjalta Einarssonar, skipstjóra á Svani, hefur aðalveiðisvæðið verið NA af Langanesi síðustu daga en einnnig hefur veiði verið sunnar.

,,Þessi loðna virðist vera á austur eða suð-austurleið en við vitum að það er loðna hér norðvestar og eins austar en þar hefur verið þrálát bræla marga síðustu daga. Engar fréttir hafa þó borist um loðnu sunnarlega út af Austfjörðum,” segir Hjalti í samtali á heimasíðu Brims.

Hjalti segir að fyrst til að byrja með hafi loðnan veiðst meðan birtu naut en nú virðist besta veiðin vera yfir blánóttina.

,,Loðnan heldur sig á 70 til 80 metra dýpi í myrkrinu. Við höfum skemmst togað í fjóra tíma og förum helst ekki yfir 12 tímana. Stærðin á loðnni hefur verið mjög góð. Við höfum mest verið að veiða stóra loðnu, um 40 stykki í kílóinu, en svo getur þetta sveiflast örlítið milli túra. Hið sama á við um átuna. Nú er loðnan, sem við erum með í tönkum, alveg átulaus en í sumum túrum er örlítil áta í loðnni,” segir Hjalti en hann kveður mörg skip vera á miðunum. Auk íslenskra skipa séu þar norsk skip og fjögur grænlensk skip. Færeyingarnir séu enn ekki byrjaðir.

Deila: