Stórir hryggir og sæfjöll

87
Deila:

Sumarið 2020 kortlögðu leiðangursmenn á RS Árna Friðrikssyni samanlagt um 46.600 km2 hafsvæði í tveimur leiðöngrum í júní og ágúst. Mælingar í júníleiðangri skiluðu rúmlega því sem gert var ráð fyrir að mæla, en áætlað var að klára hafsvæðið sem tengir Íslandsdjúp við suðurbrún landgrunnsins, austan við Kötluhryggi.

Miklar og góðar upplýsingar fengust um farvegi sem teygja sig frá landgrunnsbrún suður eftir öllu djúpinu í gegnum mikla bunka af setlögum.

Árið 2019 sást hvernig þessir farvegir og fleiri sameinast í meginfarveg Norður Atlantshafsins, Maury farveginum. (https://www.hafogvatn.is/is/moya/news/metafkost-saefjoll-og-gullskip-vid-kortlagningu-hafsbotns). Enn fleiri sæfjöll og eldstöðvar komu fram í rótum Íslands-Færeyjahryggsins, auk skriðusára og setstalla víðsvegar um mælingasvæðið. Auk þess tókst að bæta við 497 km2 á landgrunninu, þar af voru 337 km2 af samfelldum mælingum á Selvogsbanka.

Í ágúst voru gerðar fjölgeislamælingar á dýpsta svæðinu í Vesturdjúpi, og tengjast þar eldri fjölgeislamælingum í Grænlandssundi og svæðunum í kring. Þar komu í ljós, stórir hryggir og sæfjöll sundurskorin af djúpum farvegum. Þónokkur keilulaga sæfjöll komu fram í Vesturdjúpi, svipuð þeim sem hafa sést í eldri mælingum Hafrannsóknastofnunar.

Afrakstur síðastliðinna ára, frá því átaksverkefnið hófst, hefur skilað um 165 þús. km2 af samfelldum mælingum, mest á hafsvæðum dýpri en 2.000 metrar. Með þeirri viðbót hefur um 34,2% af efnahagslögsögunni verið mæld.

Mjög góð veðurskilyrði til fjölgeislamælinga voru lengst af í báðum leiðöngrum, þó suma daga hafi mælingar þurft að líða fyrir þó nokkurn ölduslátt.

Yfirlit fjölgeislamælinga Hafrannsóknastofnunar frá árinu 2000 til 2020. Um 33.000 ferkílómetra hafsvæði dýpri en 2.000 metrar er enn ómælt.

Deila: