-->

Strandveiðar á svæði A að stöðvast

Fyrirhugað er að lokað verði fyrir strandveiðar á svæði A frá og með miðvikudeginum 19. júní. Veiðidagar á svæðinu verða þá 9 samtals þetta tímabil. Leyfilegur heildarafli á tímabilinu er 858 tonn af kvótabundnum tegundum. Aflinn nú er orðinn 709 tonn af þeim tegundum, þar af 655 tonn af þorski. Því eru um 150 tonn óveidd og má gera ráð fyrir því að sá afli náist næstkomandi þriðjudag, en 228 bátar stunda veiðar á svæðinu. Þeir hafa þegar landað 1.283 sinnum. Veiðar eru bannaðar á morgun, 17. júní.

Veiðarnar eru komnar mun skemmra á hinum svæðunum þremur að vanda.Þar skiptir mestu máli að bátarnir eru miklu færri á hverju þeirra, 109 til 125. Auk þess voru töluverðar aflaheimildir færðar frá síðasta tímabili yfir á þetta vegna ógæfta í maí. Á svæði B, fyrir Norðurlandi, er heildaraflinn 611 tonn af kvótabundnum tegundum. 125 bátar stunda veiðarnar. Aflinn er orðinn 344 tonn í kvóta, þar af 316 tonn af þorski. Því eru 270 tonn óveidd. Alls hafa bátarnir á svæði B landað 700 sinnum á tímabilinu.
Á svæði C, Austfjörðum, er sami hámarksafli. Þar hafa 109 bátar landað 480 sinnum 188 tonnum, þar af 166 af þorski og eiga óveidd 470 tonn af margumtöluðum kvótabundnum tegundum. Fyrir Suður- og Suðvesturlandi á svæði D hafa 120 bátar róið á tímabilinu og landað 419 sinnum, samtals 215 tonnum. Af því eru 117 tonn af þorski. Þar er leyfilegur heildarafli 525 tonn og 310 tonn óveidd.
Sé litið á stöðuna á öllum svæðunum nú um miðjan júní hafa 602 bátar róið og landað samtals 6.407 sinnum. Afli af kvótabundnum tegundum er 3.108 tonn og þar af er þorskur 2.720 tonn.
Á meðfylgjandi mynd er strandveiðibáturinn Eikja RE nýbúinn að landa í Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd Hjörtur Gíslason