Strandveiðar hefjast eftir viku

133
Deila:

Reglugerð um strandveiðar 2021 hefur verið gefin út. Fiskistofa hefur opnað fyrir strandveiðiumsóknir í Ugga. Fyrsti dagur strandveiða verður mánudaginn 3. maí. Til að hefja strandveiðar 3. maí þarf umsókn að hafa borist Fiskistofu fyrir kl. 14:00 þann 30.apríl og greiðsluseðill greiddur fyrir 21:00 þann sama dag.

Á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst er heimilt að veiða á handfæri allt að 10.000 tonn af þroski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa eða samtals 11.100 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Heimilt er, en ekki skylt, að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla í veiðiferðinni. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða.
Athygli er vakin á að ólíkt því sem verið hefur er samkvæmt ofangreindu ekki tiltekinn heilarafli fyrir einstök veiðisvæði eða mánuði.

Hverjum strandveiðibát er heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst.

Fái fiskiskip leyfi til strandveiða, falla úr gildi önnur veiðileyfi sem skipið kann að hafa innan íslenskrar lögsögu. Þó getur fiskiskip ekki stundað strandveiðar ef flutt hefur verið meira aflamark, í þorskígildum talið, frá skipi en flutt hefur verið til þess.

Samkvæmt breytingu á lögum um veiðar í atvinnuskyni er nú heimilt að skila inn strandveiðileyfi innan strandveiðitímabilsins og  fá almennt veiðileyfi sem nýtist það sem eftir stendur af fiskveiðiárinu.  Sækja þarf um slíka breytingu til Fiskistofu fyrir 20. dag mánaðar og tekur þá breytingin gildi 1. dag næsta mánaðar.

Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði.

  • Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps.
  • Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps.
  • Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps.
  • Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar.

Veita skal útgerð leyfi á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð.

Deila: