Strandveiðum að mestu lokið

Deila:

Strandveiðum er nú lokið eða þeim er að ljúka í dag á öllum svæðum nema svæði D, fyrir Suðurlandi. Veiðunum lauk á þriðjudag á svæði A, á svæði B voru í morgun 18 tonn óveidd og á svæði C voru heimildir fullnýttar. Á svæði D var helmingur heimildanna nýttur þegar veiðar hófust í morgun.

Á svæði A, frá Miklaholtshreppi og norður til Bolungarvíkur réru 227 bátar í ágúst. Þeir lönduðu 850 tonnum í 1.319 róðrum. Afli í róðri var að meðaltali 644 kíló og afli á bát að meðaltali 3,7 tonn. Viðmiðun um hámark heildarafla var 816 tonn og því fór veiðin 34 tonn framyfir hámarkið.

Á svæði B, frá Ströndum og fyrir Norðurlandi var aflinn í morgun orðinn 536 tonn. 135 bátar höfðu þá landað 827 sinnum og afli í róðri að meðaltali 648 kíló. Afli á bát að meðaltali var 700 kíló. Viðmiðun á þessu svæði er 554 tonn og því 18 tonn óveidd, en aflinn fer að öllum líkindum yfir hámarkið, rói bátarnir í dag.

Á svæði C, fyrir Austurlandi, höfðu 130 bátar landað 567 tonnum í 811 róðrum. Meðalafli í róðri er 700 kíló og afli á bát að meðaltali 4,5 tonn. Viðmiðun er 568 tonn og því vantaði eitt tonn upp að því væri náð. Með veiðum í dag fara bátarnir eitthvað yfir hámarkið.

Á svæði D, fyrir Suður- og Suðvesturlandi, höfðu 106 bátar farið í 293 róðra og landað samtals 151 tonni. Meðalafli í róðri er 515 kíló og afli á bát að meðaltali 1,4 tonn. Viðmiðun á þessu svæði er 308 tonn og í morgun voru því 157 tonn óveidd. Miðað við gang mála má gera ráð fyrir að heimildirnar sem eftir eru dugi út mánuðinn.

 

Deila: