Sumarslútti frestað vegna gruns um kórónuveirusmit

104
Deila:

Frystihúsið á Seyðisfirði fer í sumarstopp á morgun, 1. júlí. Klárað var að vinna afla úr Gullver í gær og stendur til að þrífa og gera húsið klárt fyrir stopp í dag. Einhverjir starfsmenn munu sinna viðhaldsverkefnum í sumarstoppi. Ráðgert er að framleiðsla hefjist aftur eftir verslunarmannahelgi.

Framleiðslan hefur gengið ágætlega það sem af er ári. Búið er að taka á móti rúmlega 1200 tonnum af hráefni og er uppstaðan þorskur. Starfsemin hefur líkt og annað í efnahagslífinu farið varhluta af kórónuveirufaraldrinum. Með góðri viðbragðsáætlun og samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda hefur tekist að halda framleiðslunni gangandi í gegnum þessa fordæmalausu tíma.

Hefð hefur verið fyrir því að hefja sumarfríð með starfsmannaslútti og átti það að vera síðastliðinn laugardag. Ákveðið var að fresta því og hafa frekar hátíð með starfsmönnum í haust ef aðstæður leyfa. Ástæða frestunnar var að sl. föstudag kom upp grunur á kórónuveirusmit þegar starfsmaður í frystihúsinu sem hafði glímt við veikindi var sendur í próf fyrir veirunni. Óvissa var um niðurstöðu sýnisins og því var ábyrga niðurstaðan að fresta slúttinu.

Vert er að taka fram að umræddur starfsmaður er búinn að fá niðurstöðu úr sýninu og reyndist það blessunarlega neikvætt.

Heimasíða Síldarvinnslunnar heyrði í Róberti Inga Tómassyni framleiðslustjóra. „Framleiðslan hefur verið lituð af kórónuveirunni og höfum við þurft að aðalaga framleiðslu afurða að breyttri eftirspurn á mörkuðum. En sóttvarnir hafa gengið vel hjá okkur, við lokuðum á allar utanaðkomandi heimsóknir og breyttum verkferlum með það í huga að draga úr hættu á smiti. Framleiðsla afurða hefur gengið ágætlega hjá okkur mest er framleitt af þorsk, ýsu og ufsa. Það kom upp erfið staða fyrir helgi þegar starfsmaður okkar sem hafði glímt við veikindi var sendur í sýnatöku fyrir kórónuveirunni. Við ákváðum tafarlaust að það eina ábyrga í stöðunni var að fresta starfsmannaslúttinu fyrst ekki lá fyrir niðurstaða úr sýninu. Það var mikil eftirvænting og spenna fyrir slúttinu meðal starfsmanna og vonumst við til að geta boðið þeim upp á starfsmannaskemmtun í haust“

 

Deila: