-->

Svipaður fiskafli við Færeyjar

Fiskafli Færeyinga var á síðasta ári um 360.000 tonn, sem er 5.000 tonnum meira en árið áður. Helstu breytingar milli áranna 2012 og 2011 eru þær að veiðar á uppsjávarfiski hafa aukist. Töluverð aukning varð á veiðum á loðnu, síld og kolmunna, en þar nemur aukningin samtals 60.000 tonnum. Samdráttur varð hins vegar í veiðum á makríl, ufsa og gullaxi sem nemur 30.000 tonnum samkvæmt upplýsingum frá færeysku hagstofunni.
Heildarafli Færeyinga hefur dregist verulega saman undanfarin ár.  Á bilinu 2003 ti 2007 var fiskaflinn samtals í kringum 600.000 tonn. Skýringin á minni afla liggur einkum í verulegum samdrætti í kolmunnaveiðum. Afli af honum var að meðaltali yfir 300.000 tonn á árunum 2003 til 2007 en fór niður í 16.000 tonn árið 2011. Á síðasta ári veiddust 43.000 tonn af kolmunna. Stofninn er nú að braggast eftir lægð og er kolmunnakvóti Færeyinga á þessu ári 155.000 tonn.
Stærsti hluti aflans, 184.000 tonn, var tekinn á færeyska landgrunninu og á Færeyjabanka. Mestur hluti þess var ufsi, 38.000 tonn, 37.000 tonn af síld og 34.000 af kolmunna. Næst gjöfulustu fiskimið Færeyinga eru svo Austur-Grænland, við Jan Mayen og í Noregshafi. Þar voru um 100.000 tonn tekin, þar af 81.000 af makríl. Færeyingar veiða einnig á Hatton-banka og á Reykjaneshrygg og hafa aflaheimildir við Ísland.
Tveir þriðju hlutar fiskafla Færeyinga er uppsjávarfiskur og af því var makríll 107.000 tonn. Botnfiskur er á milli 25 til 30% heildarinnar. Ufsaafli var um 40.000 tonn og þorskafli tæplega 30.000 tonn. Afli af þorski og ýsu hefur dregist mikið saman síðustu árin. Frá árinu 2003 hefur þorskafli helmingast, farið úr 58.000 tonnum í 30.000 árið 2012. Ýsuaflinn hefur á sama tíma fallið úr 30.000 tonnum í 5.000 tonn. Samdrátturinn er mestur á heimaslóðinni. Megnið af þorskaflanum er nú tekið í Barentshafi, en ufsinn veiðist hins vegar nær eingöngu við Færeyjar. Meðalufsaafli var nærri 70.000 tonn á árunum 2005 til 2009, en var kominn niður í 40.00 tonn í fyrra.

Á myndinni landar Þrándur í Götu, eitt af uppsjávarveiðiskipum Færeyinga, góðum afla.