Svo dó markaðurinn!

216
Deila:

Markaðir fyrir ferskan fisk í Evrópu hafa hreinlega hrunið vegna Covid-19 veirunnar, enda er efnahagslífið þar nánast í „frosti“. Íslenskir framleiðendur hafa því dregið úr framleiðslu á ferskum fiski og fært sig yfir í frystan fisk í einhverjum mæli.

Stjórnvöld fylgjast náið með

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir áhrifum COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Þar kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fylgdist náið með þróun mála og að ráðuneytinu berist reglulegar upplýsingar frá m.a. Bændasamtökum Íslands og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Eindregin samstaða væri um að lágmarka efnahagslega neikvæð áhrif veirunnar bæði til skemmri og lengri tíma.

Varðandi sjávarútveg væri ljóst að eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu væri orðin því sem næst engin. Áhrifin væru þó víðtækari og ekki bundin við ferskar afurðir enda yrðu íslensks sjávarútvegsfyrirtæki vör við samdrátt í eftirspurn allra tegunda inn á sína sterkustu markaði.

Loks gerði Kristján Þór grein fyrir því að ráðuneytið myndi áfram fylgjast náið með þróun mála og grípa til nauðsynlegra aðgerða eftir því sem tilefni verður til.

Eru að frysta á fullu

„Við höfum að mestu leyti verið að vinna ferskar afurðir, en svo dó hreinlega markaðurinn um daginn, því erum við að frysta núna af fullum krafti. En 80% af tekjunum á síðasta ári komu úr sölu á ferskum afurðum. Það mun hafa veruleg áhrif á tekjur og sölu ef markaðurinn fyrir ferskar afurðir nær sér ekki fljótlega á strik. Freðfiskmarkaðurinn styrkist þá væntanlega aðeins á móti, en það er ekki tímabært að meta það. Það eru væntingar, sem ekki eru í hendi,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri G.Run í Grundarfirði í samtali við Auðlindina.

Kaupa fiskinn í stórmörkuðunum

„Breytingin sem við sjáum verða vegna Covid-19 veirunnar er að fisksalan og fiskkaupin færast yfir í stórmarkaðina. Fyrst byrjaði fólk að hamstra þurrmat og dósamat, en í  dag er þetta að fara aftur í fyrra form. Fólk er bara farið að kaupa matvöru eins og áður, hvort sem það sé fiskur eða kjöt eða grænmeti og þess háttar. Fólk heldur sig heima og það eina sem það má fara og kemst í meginhluta Evrópu er í stórmarkaði og apótek.

Salan á ferska fiskinum er því að færast til, frá veitingahúsum og hótelum, inn í stórmarkaðina. Ferðamannageirinn er meira og minna lamaður, fólk heldur sig heima en þarf auðvitað að borða áfram og gerir það nú heima í stað þess að fara út að borða,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar í Grindavík, í samtali við Auðlindina.

Á myndinni er verið að landa karfa úr Þóri SF. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: