-->

Tælenskar fiskibollur

Enn er það ýsa, eða reyndar þorskur eftir því hvað hendi er næst og hver og einn kýs. En að þessu sinni leitum við langt yfir skammt til að sækja uppskrift því þess er ættuð frá Tælandi. Tilbreyting í matreiðslu er bara til góðs og gaman að spreyta sig á matseld frá framandi löndum. Þessa uppskrift dró Helga upp úr pússi sínu, en þar er úr miklu að moða. Hún er úr einblöðungi frá Af bestu lyst. Gamlar og nýjar uppskriftir og réttir frá fjölmörgum löndum. Þó við séum íhaldssöm að eðlisfari höfum við gaman að því að breyta aðeins til í matseldinni. Það gerum við til dæmis gjarnan í fiskibollunum. Eigum alltaf nóg af hakki og eldum svo á ýmsa vegu, þó gömlu góðu bollurnar með lauk og brúnni sósu séu alltaf vinsælar hjá öldnum sem ungum.

Innihald:
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 stilkur sítrónugras
50 gr krabbakjöt (surimi)
500 gr ýsu- eða þorskhakk
1 egg
½ sítróna eða límóna (börkur og safi)
1-2 tsk sambal oelek (þetta er chilimauk, sem fæst víða)
½ msk fiskisósa
1 msk sóblómaolía
Salat:
1 agúrka
1 chilipipar (rauður)
1 rauðlaukur
1 límóna (börkur og safi)
1 tsk fiskisósa
1 tsk sykur
½ dl jarðhnetur (ósaltar)
Aðferðin:
Afhýðið og saxið lauk og sítrónugras. Rífið börk að sítrónu/límónu. Saxið krabbakjöt og bætið saman við fiskhakkið. Blandið öllu saman ásamt eggi, sambal oelek og fiskisósu. Hitið olíu á pönnu. Mótið litlar fiskibollur og steikið í 5 mínútur hvorum megin. (Athugið fiskibollurnar verða flatari en þær sem við eigum að venjast.)
Salat: Afhýðið agúrku og skerið í tvennt eftir endilöngu og  síðan í sneiðar. Fínsaxið lauk, fjarlægið kjarna úr chilipipar og fínsaxið. Rífið börk af sítrónu/límónu og kreistið safann úr. Blandið öllu saman við fiskisósuna ásamt sykri. Bætið gúrkusneiðunum saman við og stráið jarðhnetum yfir salatið.
Sjóðið 2½ dl af jasmínhrísgrjónum skv. Leiðbeiningum á pakka og berið fram með fiskibollunum.
Surimi eða krabbakjöt er fiskhakk sem blandað er salti og bragðefnum. Oftast er dálitlu af krabbakjöti blandað saman við en þó ekki alltaf.