Tævönsk stúlka skipstjóri á hafnsögubáti Ísafjarðarbæjar

Deila:

Stúlka frá Tævan, Sheng Ing Wang, er nú orðin skipstjóri á hafnsögubát Ísafjarðarhafna. Hún hefur mikil skipstjórnarréttindi og hefur verið skipstjóri á stórum fragtskipum frá Tævan. Hún stundar nú nám við Háskólasetrið á Ísafirði, sem snýst um umhverfisáhrif skemmtiferða skipa. Hún ver sumarleyfinu í hafnarstörf, sem nýtast henni í náminu.

Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Ísafjarðarhafna en þar segir svo: Við hjá Höfnum Ísafjarðarbæjar auglýstum eftir skipstjóra í sumarafleysingar snemma í vor með engum árangri. Það bara spurðist enginn fyrir og engin umsókn barst.
Síðan gerðist það að það kom til okkar stúlka frá Tævan sem hefur verið að nema við Háskólasetrið á Ísafirði síðastliðinn vetur og óskar eftir að koma í samstarf við okkur er varðaði lokaverkefni hennar við námið sem er Haf og Strandsvæðastjórnun vegna rannsóknar hennar á umhverfismálum um útblástur og olíugæðum sem og almennum umhverfismálum skemmtiferðaskipa.
Nú til að gera langa sögu stutta þá tókum við strax vel í þetta og í spjalli okkar saman kemur í ljós að hún var fyrrverandi skipstjóri á þrjátíuþúsund tonna gámaflutningsskipi í Tævan og sigldi á hafnir í Asíu, Evrópu og á vesturströnd Ameríku en hafði tekið sér frí til að fara í skóla í einn vetur á Ísafirði til að mennta sig meira.
Verandi með lausa stöðu skipstjóra hjá Ísafjarðarhöfn þá bauð ég henni að koma að vinna hjá okkur í sumar sem hún þáði að sjálfsögðu og sinnir hún bara almennum hafnarstörfum ásamt því að vera skipstjóri á hafsögubátnum og síðast en ekki síst þá sinnir hún þessu umhverfisverkefni sem mun nýtast okkur í framtíðinni.
Þannig að þetta bara smellpassaði allt saman og er algerlega win win fyrir alla eins og við segjum.
Við bjóðum Sheng Ing Wang velkomna í hópinn á Ísafjarðarhöfn.”
Á efri myndinni er Guðmundur Kristjánsson hafnarstjóri ásamt Sheng Ing Wang.

Deila: