Taka ákvörðun um makrílbætur á næstu dögum

Deila:

Sjávarútvegsfyrirtæki sem fengu minni makrílkvóta úthlutað á árunum 2011 til 2014 en lög gerðu ráð fyrir, bræða nú með sér hvort skaðabætur verða sóttar til ríkisins. Hæstiréttur hefur staðfest skaðabótaskyldu en fyrirtækin þurfa sjálf að sækja bæturnar sem samtals gætu hlaupið á tugum milljarða króna samkvæmt frétt á ruv.is.

Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðunum Hugin og Ísfélagi Vestmannaeyja í desember í fyrra. Dómurinn viðurkenndi að útgerðarfélögin hafi orðið fyrir fjártjóni þegar þeim var úthlutað minni aflaheimildum á makríl en skylt hefði verið samkvæmt lögum. Minni heimildum var úthlutað á grundvelli reglugerðar þáverandi sjávarútvegsráðherra.

Aðrar útgerðir hafa nú sótt staðfestingu á því fyrir dómstólum að ríkið sé einnig skaðabótaskylt gagnvart þeim.

„Hæstiréttur hefur staðfest það að ríkið braut lög þegar það skipti makrílkvótanum og við erum með þann dóm í hendi,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. „Og við erum náttúrlega bara að skoða það hvort við förum í skaðabótamál eða ekki. Mér finnst bara mjög líklegt að við förum í það.“

Upphæðirnar hlaupa á milljörðum

Viðmælendur fréttastofu, hvoru megin borðsins sem þeir sitja, eru ragir við að nefna hugsanlega upphæð bótakrafna. Í máli Hugins og Ísfélagsins fyrir Hæstarétti hljóp áætlað fjártjón fyrirtækjanna á milljörðum króna. Sigurgeir Brynjar segir að verið sé að leggja mat á tjónið og að ákvarðana um framhaldið sé að vænta á næstu dögum.

„Þetta eru mjög flóknir reikningar. En prinsippið er mjög einfalt. Hæstiréttur hefur dæmt að ríkið braut lög. Ef að ég brýt lög sem einstaklingur eða ef fyrirtæki brýtur lög sem einstaklingur þá þarftu auðvitað að greiða bætur, sérstaklega ef um fjárhagslega hagsmuni að ræða,“ segir Sigurgeir Brynjar.

„Þegar við fórum í staðfestingarmálið á sínum tíma þá skoðuðum við það hvað þetta gæti verið og erum reyndar bara að fara yfir þessa reikninga núna og hvernig þetta myndi líta út. Við þurfum að taka ákvörðun um þetta á næstu dögum,“ segir Sigurgeir Brynjar.

 

Deila: