-->

Tengdamóðirin eftirminnilegasti vinnufélaginn

Maður vikunnar er Ólafsfirðingur búsettur á Dalvík. Hann byrjaði ungur að vinna í fiski hjá Sigvalda Þorleifs, en var síðar á sjó á sumrin með námi við Ísland, Noreg og Nýfundnaland.  Nú er hann verkstjóri í nýju og glæsilegu frystihúsi Samherja á Dalvík.

Nafn:

Jón Sæmundsson kallaður Nonni af flestum

Hvaðan ertu?

Er Ólafsfirðingur í húð og hár, en eins ótrúlegt og það er þá bý ég á Dalvík.

Fjölskylduhagir?

Ég er giftur Elíngunni Rut Sævarsdóttur og á með henni þrjú börn, Írenu Rut, Hilmi Þey og Elmu Rut

Hvar starfar þú núna?

Ég er verkstjóri í nýju og glæsilegu fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég byrjaði að vinna í fiski hjá Sigvalda Þorleifs þegar ég var gutti. Svo var ég á sjó á sumrin með skóla, búinn að vera á hinum ýmsu döllum, veitt bæði hér við Ísland, Noreg og Nýfundnaland. 

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Þetta er svo ótrúlega fjölbreytt. Maður veit nánast aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér þegar maður mætir að morgni.  

En það erfiðasta?

Núna er það að byrja í nýju starfi, koma nýrri vinnslu á skrið ásamt fullt af mögnuðu fólki. 

 Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er örugglega þegar ég var í vinnuferðum í Nígeríu þegar ég vann hjá Sölku-Fiskmiðlun og var að ferðast um fiskmarkaðina með vopnaða hermenn mér við hlið þar sem þetta var seint talinn öruggur staður til að vera á. 

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Held það sé tengdamóður mín. Var að vinna með henni á Grillbarnum á Ólafsfirði þegar ég var gutti.  Hún er náttúrulega eins og hún er og maður var hálf smeykur við hana þar sem hún er frekar ákveðin og getur verið hvöss þótt hún ætli sér ekki að vera það. Svo vill það svo skemmtilega til að 25 árum seinna þá er ég giftur dóttur hennar og við deilum skrifstofu saman, en hún er gæðastjóri hér á Dalvík. En hún er algjört gæðablóð. 

Hver eru áhugamál þín?

Skotveiði sem ég hef ekki náð að sinna undanfarin ár, blak, fótbolti og golf. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Pizzan er alltaf ofarlega en verð ég ekki að segja góð lambasteik með góðu meðlæti sé uppáhaldið.  En sósan verður að slá í gegn.

Hvert færir þú í draumfríið?

Það er brúðkaupsferðin til Maldives-eyja sem við fórum aldrei í. 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Síldarvinnslan framúrskarandi enn og aftur

Creditinfo hefur nú tilkynnt hvaða fyrirtæki á Íslandi töldust framúrskarandi á rekstrarárinu 2019 samkvæmt þeim viðmiðum sem s...

thumbnail
hover

Vonar að lærdómur verði dreginn af...

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra furðar sig á þeim viðbrögðum sem viðhöfð voru um borð í frystitogaranum Júl...

thumbnail
hover

Rólegt á kolmunnanum

Venus NS og Víkingur AK voru í lok síðustu viku á Vopnafirði með um 2.100 tonn af kolmunna. Þetta er afrakstur fyrstu veiðiferðar ...