Það koma góðar gusur

88
Deila:

Ísfisktogarinn Bergey VE kom til Vestmannaeyja síðdegis á þriðjudag með fullfermi og systurskipið Vestmannaey VE kom þangað um nóttina sömuleiðis með fullfermi. Í gærmorgun ræddi heimasíða Síldarvinnslunnar stuttlega við Jón Valgeirsson skipstjóra á Bergey og Birgi Þór Sverrisson skipstjóra á Vestmannaey.

Jón sagði að vel hefði gengið að veiða í blíðskaparveðri. „Við vorum mest á Pétursey og Vík. Fengum þorsk á Pétursey og blöndu af þorski og ýsu á Vík. Síðan fórum við á Kötlugrunn og þar var aðeins karfi. Það er stígandi í veiðinni enda er hinn hefðbundni vertíðartími að nálgast,“ segir Jón.

Birgir Þór tekur undir með Jóni og segir að fiskgengd sé að aukast. „Við vorum á Pétursey og Vík og það gekk ljómandi vel að fiska. Vertíðarkrafturinn á samt eftir að koma í þetta en það koma góðar gusur,“ segir Birgir Þór.

Bæði skipin halda til veiða á ný síðdegis í dag og gert er ráð fyrir að þau komi síðan til löndunar á sunnudag.

 

Deila: