Þjóðverjar snæða meira af norskum laxi

90
Deila:

Kórónaveirufaraldurinn hefur breytt ansi miklu um veröld víða. Flest er það að sjálfsögðu neikvætt, en norskir útflytjendur sjávarafurða hafa séð ýmsa jákvæða þætti í faraldrinum; meðal annars verulega aukningu á neyslu Þjóðverja á fiskmeti. Þeir virðast vera tilbúnir að draga úr pylsuáti og súrkáli, og borða fremur sushi og reyktan lax.

Við upphaf faraldursins sýndu neyslukannanir að 76% þýskra neytenda vildu auka fiskneyslu sína. Rúmlega ári seinna er hlutfallið 62%

Þjóðverjar, eins og aðrar þjóðir hafa fært neyslu sína inn á heimilið vegna krórónaveirunnar, sem leiddi til lokana veitingahúsa og hótela. Þetta hefur leitt til þess að 1,4 milljónum fleiri heimila borða nú lax í kvöldverð, en fyrir faraldurinn samkvæmt könnun Norðmanna. Unga fólkið leggur nú meiri áherslu á sjálfbærni og hollustu og á það einnig við um þann hóp, sem neytir minnstu af sjávarafurðum.  

Í ljós hefur komið að 49% neytenda undir 34 ára aldri borða nú sushi einu sinni í mánuði eða oftar. Það er tveimur prósentustigum meira en í Noregi. Meirihluti þessa aldurshóps vill ennfremur auka neyslu sína á sjávarafurðum.

Á síðasta ári fluttu Norðmenn út sjávarafurðir beint til Þýskalands að verðmæti 162 milljarðar íslenskra kóróna. Auk þess fara sjávarafurðir sem Norðmenn flytja til annarra landa, eins og Póllands og Danmerkur, að nokkru leyti þaðan til Þýskalands eftir vinnslu í hinum löndunum.

Þrátt fyrir að markaðshlutdeild, alaskaufsa, túnfisks, síldar, ferskvatnsurriða og þorsks hafi aukist, er hlutfallið það sama og 2019. Undantekningin er laxinn. Hlutdeild hans í Þýskalandi er nú 15,5% og hefur aukist um 1%. Þannig sækir laxinn á alaskaufsann, sem er með 17,8% markaðshlutdeild, en hann er fyrst og fremst notaður í frystar afurðir eins og fiskifingur.

Árinu 2020 fluttu Þjóðverjar inn fiskafurðir að verðmæti 659 milljarðar íslenskra króna. Magnið var 452.803 tonn, sem fór í gegnum þýska dagvörumarkaðinn.

Þýski matvælamarkaðurinn er mjög mikilvægur fyrir norska framleiðendur, einkum á laxi. Neysla á honum hefur aukist síðustu ár og er skýringin að hluta til sú að neysla sjávarafurða heimafyrir hefur aukist um næstum því þriðjung. Á þýskum heimilum voru borðuð 71.494 tonn af laxi árið 2020.

29 milljónir heimila hafa haft lax í matinn á síðasta ári. Það 70% allra heimila og vöxtur um 7% frá árinu 2019. Þjóðverja snæða lax oftar en áður og mest er aukningin í reyktum laxi. Neysla á ferskum laxi hefur einnig aukist og þar er vöxturinn hlutfallslega mestur.

Það eru Berlínarbúar sem er mestu laxaæturnar. Þar hefur neyslan vaxið um 39%. Svo virðist sem þeir hafi áttað sig á því í faraldrinum og þeir gætu alveg matreitt laxinn heima fyrir í stað þess að borða hann á veitingahúsum. Neyslan er bæði í tilbúnum réttum og frystum ferskum laxi.

Deila: