-->

Þorskafli við Færeyjar í sögulegu lágmarki

Afli á þorski og ýsu við Færeyjar er nú nálægt sögulegu lágmarki og hefur minnkað hratt á þessari öld. Fyrstu fjóra mánuði ársins hafa aðeins veiðst 2.766 tonn af þorski, sem er tæplega þúsund tonna samdráttur frá sama tímabili á árinu áður, eða 26%. Samdráttur í verði er enn meiri milli tímabila, 36%, sem bendir til verulegrar verðlækkunar.
Ýsuafli við Færeyjar á sama tímabili nú er reyndar heldur meiri en á sama tíma í fyrra, samtals 1.576 tonn, sem er aukning um 376 tonn eða 31%. Sambærileg aukning er í verðmætum. Þá hefur afli af ufsa dregist mjög mikið saman. Fyrstu fjóra mánuði þessa árs varð ufsaaflinn aðeins 9.867 tonn, sem er ríflega 4.000 tonnum minna en árið áður. Samdrátturinn er 30% í magni og 38% í verðmætum.
Sé litið á botnfisk í heild fyrstu fjóra mánuði ársins er aflinn nú 17.000 tonn sem er 6.350 tonnum minna en á sama tíma fyrir ári, eða 27% samdráttur. Verðmætin dragast svo enn meira saman eða um 35%. Sé loks miðað við allan afla annan en uppsjávarfisk, varð hann 22.765 tonn fyrstu fjóra mánuði ársins, sem er 26% samdráttur í magni og verðmætin drógust saman um 32%.
Á síðasta ári nam þorskaflinn við Færeyjar ríflega 8.500 tonnum og ýsuafli aðeins rúmum 2.600 tonnum. Samdrátturinn í þorski frá árinu áður, þegar hann varð ríflega 12.100 tonn, er langleiðina í 50%. Samdrátturinn í ýsunni er mun minni, aðeins 715 tonn. Sé hins vegar farið lengra aftur í tímann er um gífurlegan samdrátt að ræða, en sveiflur milli ára hafa verið miklar. 1993 var þorskaflinn við Færeyjar aðeins 6.416 tonn, en fór í 39.650 tonn strax árið 1996. Hann minnkaði svo aftur en náði svo hámarki í 38.4000 tonnum 2002. Síðan hefur leiðin legið  hratt niður.
Ýsuafli hefur aldrei verið mikill við Færeyjar. Hann var 4.200 tonn 1993 og var þá í lágmarki. Aflinn þokaðist svo hægt og rólega upp og náði hámarki í 24.560 tonnum 2003. Síðan þá hefur aflinn fallið hratt og er nú í sögulegu lágmarki.
Afli af ufsa við Færeyjar hefur verið mun stöðugri og jafnframt meiri en af þorski og ýsu undanfarna tvo áratugi. 1993 varð ufsaaflinn 33.470 tonn, en náði hámarki 2005 í 62.000 tonn. Síðan þá hefur aflinn dregist mikið saman og var 2012 kominn niður í 32.750 tonn, sem er rétt rúmur helmingur þess sem mest var.