-->

Þorskárgangurinn 2013 metinn lítill

Fyrsta mat Hafrannsóknastofnunar á 2013 árgangi þorsks bendir til að hann sé lítill. Hann kemur í kjölfar meðalstórra árganga frá 2008, 2009 og 2011, en árgangar 2010 og 2012 eru slakir. Stofnvísitala þorsks mældist lægri en undanfarin tvö ár, en vísitalan nú er samt sem áður með þeim hærri frá 1985. Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 50 cm yfir meðaltali tímabilsins, þótt minna mældist nú en í fyrra af þorski stærri en 80 cm Vísitala 35-50 cm þorsks var undir meðaltali áranna frá 1985 sem rekja má til lélegs árgangs frá 2010. Þetta eru fyrstu niðurstöður úr árlegu vorralli stofnunarinnar, stofnm´lingu botnfiska á Íslandsmiðum,  sem fór fram fyrr í vetur.
Mest fékkst af þorski úti fyrir Norður- og Austurlandi, en minna fékkst á Vestfjarðamiðum og úti fyrir Suðausturlandi en undanfarin ár.
Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur farið hækkandi undanfarin ár og er nú um og yfir meðaltali rannsóknartímans hjá 7-12 ára þorski. Meðalþyngd 1-6 ára þorsks er hinsvegar undir meðaltali. Magn fæðu í þorskmögum var svipað og árin 2010-2013, en hlutfall loðnu lægra. Loðnan var þó langmikilvægasta bráð þorsksins eins og títt er á þessum árstíma. Loðna fannst í þorski víðast hvar við landið, en mest var af loðnu í þorskmögum grunnt út af Vestfjörðum, í Faxaflóa og við sunnan- og suðvestanvert landið. Af annarri fæðu má nefna ljósátu, ísrækju, síld, kolmunna og ýmsar tegundir fiska.
Botnhiti
Hitastig sjávar við botn mældist að meðaltali hátt líkt og undanfarin ár, en þó hálfri til einni gráðu lægra en í stofnmælingunni 2013. Í hlýsjónum við sunnan- og suðvestanvert landið var hitastig við botn svipað og árin 2007-2012. Við Vestfirði var hitastig lægra en undanfarin fjögur ár, en svipað og árin 2007-2009. Við norðan- og norðaustanvert landið var botnhiti með lægra móti ef miðað er við hlýju árin frá 1996, en við Suðausturland var botnhiti hár.
Stofnvísitala ýsu hækkaði verulega á árunum 2002-2006 í kjölfar góðrar nýliðunar, en fór ört lækkandi næstu fjögur árin þar á eftir. Vísitalan í ár er svipuð því sem verið hefur í vorralli frá 2010. Lengdardreifing ýsunnar sýnir að ýsa minni en 55 cm er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali. Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að allir ýsuárgangar frá og með 2008 séu lélegir, þar með talinn yngsti árgangurinn frá 2013. Ekki hefur áður fengist eins mikið af 11 ára ýsu í vorralli og er þar um að ræða stóra árganginn frá 2003.
Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum land, en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan. Þetta er svipuð dreifing og verið hefur undanfarin ár, en árin 1985-1999 fékkst alltaf mun meira af ýsu við sunnanvert landið.
Meðalþyngd ýsu eftir aldri hefur farið hækkandi síðustu þrjú ár, en 8 ára og eldri ýsa er þó enn undir meðalþyngd. Fremur lítil fæða var í ýsumögum og var loðna tæplega helmingur fæðunnar, en af annarri fæðu má helst nefna slöngustjörnur, burstaorma og ljósátu.
Að venju fékkst gullkarfi víða, mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum. Heildarvísitala gullkarfa í vorralli hefur farið hækkandi frá 2008 og mælingar síðustu fimm ára hafa verið þær hæstu frá 1985. Lítið hefur hins vegar fengist undanfarin ár af smákarfa undir 30 cm.
Stofnvísitala steinbíts var lág líkt og verið hefur frá árinu 2010. Lítið fékkst af 25-60 cm steinbít miðað við fyrri ár, sem bendir til að nýliðun í veiðistofninn verði léleg á komandi árum, en magn steinbíts stærri en 70 cm var hins vegar yfir meðallagi. Mest fékkst af steinbít á Vestfjarðamiðum og í innanverðum Faxaflóa.
Vísitala lúðu í stofnmælingunni lækkaði hratt á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Mjög lítið hefur fengist af lúðu í vorralli síðustu sjö ár og stofnvísitalan þessi ár er um 20 sinnum lægri en árin 1985-1986.
Stofnvísitala skarkola mældist svipuð og verið hefur undanfarinn áratug, eftir að hafa verið í lágmarki á árunum 1997-2002. Vísitalan nú er um 40% þess sem hún var að meðaltali fyrstu fjögur ár mælingarinnar.
Vísitölur þykkvalúru og langlúru hafa þróast með svipuðum hætti; fóru smám saman lækkandi fyrstu 15 árin, en hækkuðu síðan á árunum eftir aldamót. Síðan hafa vísitölur þykkvalúru og langlúru verið fremur háar en sveiflukenndar. Í ár voru vísitölur þessara tegunda svipaðar og að meðaltali undanfarin þrjú ár.
Vísitölur sandkola og skrápflúru hafa verið lágar undanfarinn áratug, en magn sandkola hefur þó farið vaxandi og verið yfir meðallagi síðustu tvö ár.
Stofnvísitala ufsa lækkaði frá fyrra ári og er nú svipuð og að meðaltali árin 2007-2013. Taka þarf vísitölum ufsa með þeim fyrirvara að þær ráðast oft af miklum afla í stökum togum og staðalfrávik mælinganna eru þá há. Ekkert stórt ufsahal fékkst í ár.
Stofnvísitala hlýra fór hækkandi frá 1990-1996, en hefur lækkað mikið síðan. Vísitölur áranna 2010-2014 eru þær fimm lægstu frá upphafi. Lítið fékkst af hlýra undir 60 cm sem bendir til að nýliðun í veiðistofninn verði léleg á komandi árum.
Vísitala löngu hækkaði á árunum 2003-2007 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan. Vísitalan 2014 er lægri en undanfarin tvö ár, en samt með þeim hærri frá 1985. Ekki hefur mælst minna af smálöngu, undir 40 cm, frá árinu 2002.
Vísitala keilu hefur haldist há frá árinu 2004, líkt og var árin 1985-1992. Vísitalan í ár er samt sú lægsta frá 2004 og hefur lækkað mikið síðustu tvö ár. Vísitölunni í ár er fyrst og fremst haldið uppi af 40-65 cm keilu, en magn 20-40 cm keilu var hins vegar með því minnsta frá því mælingin hófst. Meira fékkst af 1 árs keilu, á bilinu 10-15 cm, en undanfarin ár.
Svipað fékkst af skötusel og undanfarin tvö ár, minna en árin 2005-2011, en mun meira en fyrstu tvo áratugi stofnmælingarinnar. Allir árgangar skötusels frá 2008 hafa mælst slakir í samanburði við árgangana frá 1998-2007 og fyrsta mæling á árganginum frá 2013 bendir til að hann sé einnig slakur.
Magn hrognkelsis í vorralli jókst á árunum 2001-2006, en hefur farið minnkandi síðan. Vísitalan 2014 hækkaði nokkuð frá fyrra ári og er nú svipuð og árin 2010 og 2012.
Upp úr aldamótum fór magn ýmissa suðlægra tegunda í vorralli vaxandi við sunnanvert landið, m.a. tegundunum silfurkóði, svartgómu og litlu brosmu. Af þeim fengust aðeins stakir fiskar fyrstu 15 árin, en síðustu 4-6 ár hefur fjöldi þeirra vera talinn í hundruðum. Þessi þróun hélt áfram í vorrallinu í ár.
„Niðurstöður mælingarinnar sem hér eru kynntar til bráðabirgða eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Minna fékkst af mörgum tegundum en undanfarin tvö ár, hugsanlega vegna áhrifa annarra þátta en stofnstærðar. Árin 2005-2013 hækkaði vísitala þorsks í vorralli mun meira en stærð viðmiðunarstofns í stofnmati. Að sama skapi eru líkur á að vísitalan í ár sem er nokkru lægri en í fyrra, vegi aðeins að hluta til lækkunar áætlaðrar stærðar viðmiðunarstofns þorsks,“ segir í frétt Hafró um rallið.
Lokaúttekt á niðurstöðum og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í byrjun júní.