Þorskur í karrýhjúp

181
Deila:

Þá er það fiskikóngur Atlantshafsins, þorskurinn, sem við leggjum til að hafa í matinn. Þetta er mjög góður veisluréttur með skemmtilega austrænu ívafi, sem hæfir vel því góða hráefni sem léttsaltaður þorskur er. Uppskriftin er fyrir fjóra.

Innihald:

4 bitar úr léttsöltuðum þorskhnakka, hver um 200g að þyngd.
6-8 kartöflur skornar í strá eða strimla
2 bréf karrýsósa t.d. frá Toro.
6-7 dl. vatn
2 msk. karrýduft
ein lítil dós af kókosmjólk
1 tsk. anísfræ
2 dl.rjómi

Aðferð:

Afhýðið kartöflurnar og skerið í mjóa strimla. Leggið þær í bleyti um stund og látið síðan þornla á eldhúsrúllubréfi. Blandið saman innihaldinu úr sósubréfunum við rúmlega helminginn af vatninu, rjómanum, kókosmjólkinni og kryddinu og hrærið saman þannig að úr verði fínn en nokkuð þykkur grautur.
Smyrjið eldfast mót og leggið þorskbitana niður á roðhliðinni. Jafnið hluta af karrýgrautnum yfir bitana þannig að um þá myndist góður hjúpur. Bakið síðan fiskinn í ofni við 180°C í 15 til 20 mínútur eftir þykkt fiskbitanna.
Á meðan fiskurinn er að bakast eru kartöflustrimlarnir steiktir upp úr snarpheitir matarolíu og grænmeti að eigin vali skorið niður í salat. Þá er vatni bætt út í karrýgrautinn svo út verði mjúk og bragðgóð karrýsósa. Smakkið hana til eftir vild.

Jafnið helmingnum af sósunni á fjóra diska. Setjið salatið á helming disksins. Fiskbitana við hliðina og jafnið því sem eftir er af sósunni á diska og dreifið síðan kartöflunum jafnt yfir bitana.
Okkur finnst gott rauðvín hæfa þessum rétti ágætlega.

Deila: