Þorskur með sítrónusmjöri

Deila:

Nú bjóðum við upp á einfaldan og fljótlega þorskrétt. Eins og flestir vita er þorskurinn afbragsgóður matfiskur og auðvelt að verka hann á ýmsa máta og elda. Við getum borðað hann ferskan, saltaðan, siginn og hertan. Í þessari uppskrift notum við ferska þorskhnakka og þá er auðvelt að fá í öllum matvöruverslunum. Svo nú er bara að prufa.

Innihald:

4 góðir hnakkabitar af þorski um 200g

3 msk brætt smjör

safi og börkur af einni sítrónu

1 tsk gróft salt

1 tsk paprikuduft

1 tsk hvítlausduft

1 tsk laukduft

¼ tsk nýmalaður svartur pipar

3 msk ólífuolía

söxuð fersk basilíka

sítrónusneiðar til skrauts

Aðferð:

Notið eldhúspappír til að þurrka fiskbitana vandlega og leggið þá til hliðar.

Blandið saman í skál bræddu smjöri, sítrónusafa, rifnum sítrónuberki og ½ tsk af grófu salti og hrærið vel saman. Smakkið til og saltið meira ef þörf þykir.

Blandið saman í annarri skál afganginum af saltinu, paprikuduftinu, hvítlauksduftinu, laukdufti, og svörtum pipar. Penslið fiskbitana með blöndunni á öllum hliðum.

Hitið ólífuolíuna á góðri pönnu þar til hún er farin að krauma. Steikið þá fiskbitana á báðum hliðum uns þeir verða gullnir og dreypið smávegis af smjörinu yfir. Geymið svo smjörið til að bera fram með fiskinum.

Berið fiskinn fram með smjörsósunni, saxaðri basilíku og sítrónusneiðum. Gott er að hafa hrísgrjón með þessum rétti og brauð eða salat að eigin vali.

Deila: