-->

Þorskurinn þvælist fyrir

Frystitogarinn Venus HF er nú að veiðum vestur af Látrabjargi og hefur veiðiferðin staðið yfir í um hálfan mánuð. Þetta er síðasta úthald Venusar fyrir HB Granda en ákveðið hefur verið að leggja togaranum þegar veiðiferðinni lýkur þann 9. júlí sl.
Að sögn Guðmundar Jónssonar skipstjóra, í samtali við heimasíðu HB Granda, hefur Venus verið að veiðum á Vestfjarðamiðum, farið austur í Húnaflóa og suður fyrir Víkurálinn. Hann segir aflabrögðin vera upp og ofan.

,,Við vorum sendir til að veiða aðallega karfa og ufsa og sem minnst af þorski og ýsu. Sem fyrr samræmist sú áætlun ekki tillögum fiskifræðinga því það er nánast sama hvar við erum, þorskurinn þvælist alls staðar fyrir okkur og það er mikið af honum. Það er sama hvort reynt er við karfa út af Víkurálnum eða ufsa einhvers staðar annars staðar. Alls staðar er þorskur með,“ segir Guðmundur. Miðað við það sem sjómenn sjái á miðunum þá gangi úthlutun á kvótum á Íslandsmiðum ekki upp. Það þurfi að auka þorskkvótann verulega til þess að hægt sé að veiða tegundir eins og karfa og ufsa á hagkvæman hátt.