-->

Þorskurinn vannýttur?

Stöðugt algengara er orðið að smærri þorskur finnist í maga stórþorsks, þegar hann er slægður. Þetta bendir til þess að meira sé um að þorskurinn leggist á eigið ungviði í fæðuleit, en hlutfall stórþorsks í stofninum hefur farið hratt vaxandi undanfarin ár. Þetta er reynsla Alberts Svavarssonar, framkvæmdastjóra Ísfisks í Kópavogi. „Við fáum af og til allt af 30 kílóa þorsk í vinnsluna og oftast eru í honum smærri þorskar, sem hann hefur étið“ segir Albert í viðtali við kvotinn.is

Hann telur að endurskoða þurfi nýtingarstefnu á þorski og rangt sé að miða alltaf við að taka ekki meira en 20% úr stofninum árlega óháð stofnstærð hans. Með stækkandi stofni eigi ð auka veiðihlutfallið til að hámarka nýtinguna, en jafnframt stunda sjálfbærar veiðar. Þannig skili þorskstofninn mestum afrakstri fyrir þjóðarbúið.

„Við skulum gefa okkur að stofnstærðarmælingin sé rétt og Hafró sé að meta breytingar á stofnstærðinni rétt.  En að setja svona einfalda veiðireglu inn í svona flókið líkan er einfaldlega galið að mínu mati út frá nýtingarsjónarmiði,“ segir Albert. „Ég hef alltaf talið að íslenska þjóðin eigi þorskstofninn og hún eigi að ráða því hvernig hún nýtir hann. Við verðum þó alltaf að gæta þess að veiðarnar séu sjálfbærar. Það hefur jákvæð áhrif á sölu okkar á fiski að við getum sýnt fram á að við séum að veiða úr sjálfbærum þorskstofni. Ég efast um að það sé nokkur þjóð í heiminum sem getur sagt það önnur en Íslendingar, að hún hafi verið að veiða úr sjálfbærum þorskstofni í meira en 20, jafnvel 30 ár. Það hefur jákvæð áhrif á ímynd og sölu.“
En hvað er svo sjálfbær nýting og hvernig á þá að nýta stofninn?
„Að miða alltaf við að taka 20% úr stofninum hvort sem hann er að minnka eða stækka, er hreinlega fáránlegt. Það jaðrar við að vera heimskulegt. 20% veiðiregla þýðir að stofninn stækkar stöðugt miðað við hagstæðar aðstæður í hafinu. Ef stofninn er metinn 500.000 tonn, eru tekin 100.000 tonn og 400.000 skilin eftir Sé stofninn mældur 1.100.000 tonn eins og nú, eru tekin um 200.000 tonn og 900.000 tonn skilin eftir. Svo verður haldið áfram, en hvar endar þetta þá. Hvenær verður svo mikið af þorski í sjónum að vistkerfið ræður ekki við það og allt hrynur. Hefur það verið rannsakað, hverjar afleiðingarnar af of stórum þorskstofni geta orðið? Hvaða þörf höfum við fyrir að hafa svona stóran þorskstofn, ef við erum að hugsa um nýtingu. Hvers vega viljum við stækka stofninn stöðugt en taka alltaf jafnlágt hlutfall af honum.   Er ekki heppilegra að vera með „mátulega“ stóran stofn kannski 600.000 til 700.000 tonn og veiða úr honum 25 til 30% til dæmis eða leita að því hlutfalli, sem setur stofninn í jafnvægi. Það er greinilega ekki 20% og heldur ekki 40%, heldur einhverstaðar þar á milli. Mér finnst komið að því að þeir sem ráða ferðinni fyrir okkur þurfi að taka ákvörðun um nýtinguna og í hvaða stærð við eigum að halda stofninum.“
Og það er fleira sem þarf að huga að eins og stærðarsamsetning stofnsins og þarfir markaða erlendis.
„Mér finnst við vera komin út á hættulega braut þegar stofninn er milljón tonn og aðeins veidd 200.000 tonn, en flestir kaupendur vilja kaupa þriggja kílóa þorsk. Fyrir hann fæst hæsta verðið á fiskmörkuðum og á úti í heimi. Það leiðir til þess að veiðin beinist í þessa stærð af þorski og þá erum við að höggva mjög stórt skarð í stofninn. Enginn vill lengur veiða stóra þorskinn, því fyrir hann fæst lægra verð. Því verður sífellt stærra hlutfall af stofninum golþorskur, sem þarf einhver ósköp að éta. Ég er að fá í örfá skipti 25 og 30 kílóa þorska í vinnsluna. Þeir eru allir fullir af fiski. Stóri þorskurinn er að éta þann smærri undan sér. Þetta getur leitt til þess að það vantar árganga inn í stofninn.
Það er því orðin áleitin spurning hvernig við eigum að bregðast við þessari staðreynd. Að mínu mati á veiðihlutfallið að hækka eftir því sem stofninn vex svo honum sé haldið í þeirri stærð, sem mest gefur af sér. Kannski mætti nota svipaða aðferðafræði eins og í loðnunni, þar sem skilin eru eftir 400.000 tonn til hrygningar, en leyft að veiða það sem er umfram það.  Reyndar mætti líklega ekki fara svona öfgafullt í þorskinn. Við þurfum að hugsa dæmið betur, hvort ekki er rétt að stýra veiðinni þannig, þegar við erum komin með það sem talið er hæfilega stór stofn, að veiða það mikið að hann geri ekki meira en að viðhalda sér.  Þá eru veiðarnar sjálfbærar og við erum að fullnýta stofninn, sem hlýtur alltaf að vera markmiðið. Annars verður hann of stór og étur undan sér og nú er stofninn að stækka of hratt. Það er kannski eðlilegt í ljósi sögunnar að menn vilji fara varlega, en við þurfum að hugsa okkur um. Við þurfum að huga að hvoru tveggja, sjálfbærni og nýtingu,“ segir Albert Svavarsson.

Á myndinni er þorskur sem var 28 kíló óslægður. Þegar gert var að honum hjá Ísfiski komu úr honum tveir fiskar sem voru báðir yfir eitt kíló. Líklegast er annar þessara fiska þorskur og hinn koli.