Þrjú ný skip á Grundarfjörð

Deila:

Grundfirðingar tóku nýlega á móti þriðja nýja skipinu sem kemur þar til heimahafnar á jafn mörgum sólarhringum. Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, segir í símtali á ruv.is að nýju skipin veiti aukna trú og bjartsýni fyrir framtíð sjávarútvegs í bæjarfélaginu.

Á laugardag komu tvö ný skip til heimahafnar í bænum. Það voru endurnýjuð Farsæll SH 30 og Sigurborg SH 12 í eigu FISK Seafood, sem einnig á öll hlutabréf í Soffaníasi Cecilssyni hf. sem enn er rekið undir eigin heiti. Síðan kom svo þriðja skipið til hafnar, Runólfur SH 135, en það er nýtt skip Guðmundar Runólfssonar hf.

Tekið var á móti skipinu með viðhöfn á fimmta tímanum og liggja nú öll nýju skipin við Norðurgarð Grundarfjarðarhafnar með hátíðarfánum. Annað skip G. Run, Hringur SH 153, kom svo einnig að landi með fullfermi í dag og segir Björg afar ánægjulegt að horfa á skipin saman við Norðurgarðinn.

„Þetta er mikil bylting fyrir áhafnir og það tryggir ákveðinn stöðugleika fyrir fyrirtækin að hafa öflugri tæki. Þessi nýju skip fara vel með áhafnirnar og eru góð veiðiskip sem tryggir breitt framboð af mismunandi tegundum,“ segir Björg, en skipin eiga að ná á fleiri og fjölbreyttari mið en þau gömlu.

Rúmt ár er síðan FISK Seafood lokaði rækjuvinnslu félagsins í Grundarfirði þar sem nítján manns var sagt upp störfum. Aðspurð segir Björg rækjuna hafa verið erfiða í mörg ár, en eftir að rækjuvinnslan lokaði var settur aukinn kraftur í saltfiskvinnslu. Þegar eitt fer niður fer annað upp og þessi nýju skip undirstriki það.

Björg segir að óbein áhrif af nýju skipunum skipti líka miklu máli, enda skapi þau meiri umsvif í byggðarlaginu.

„Þetta er lyftistöng fyrir trú og bjartsýni á framtíðina. Ferðaþjónustan hefur verið í mikilli sókn en sjávarútvegurinn er áfram okkar undirstöðuatvinnugrein. Þetta sýnir framþróun í greininni og það er gleðilegt þegar fyrirtæki hafa getu til þess endurnýja atvinnutækin og laga sig að breytingum,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar.

 

Deila: