-->

Þvinganir og málaferli af hálfu ESB

„Það eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu. Flestir þeirra sem opnir eru fyrir aðild að ESB eru um leið afdráttarlausir um mikilvægi fullveldisins. Virða þarf afstöðu þeirra sem velta því fyrir sér hvort aðild að sambandinu myndi styrkja stöðu Íslands. Eitt geta þó Íslendingar sjálfsagt verið sammála um. Það er að nú þurfi Evrópusambandið að sanna sig gagnvart Íslandi,“ sagði forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í ávarpi sínu á Austurvelli í dag í tilefni þjóðhátíðardagsins.

Sigmundur Davíð ræddi ýmis málefni er vörðuðu sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og fjallaði sérstaklega um Evrópusambandið: „ESB tók þátt í tilraunum til að þvinga Íslendinga til að taka á sig gríðarlegar efnahagslegar byrðar í andstöðu við lög og braut svo í blað í sögu sinni til að taka þátt í málaferlum gegn Íslandi. Nú þarf ESB að sýna að það sé samband sem byggi á lögum og jafnræði en ekki valdi í krafti stærðar og hagsmuna hinna stóru.
Í ljósi mikillar umræðu um áhrif Evrópusambandsaðildar á fiskveiðar hljóta Íslendingar líka að líta til þess hvort Evrópusambandið muni sýna Íslendingum aukna sanngirni í deilum um fiskveiðar okkar í eigin lögsögu. Það að beita smáþjóð ólögmætum refsiaðgerðum fyrir að veiða fisk samkvæmt vísindalegum viðmiðum í eigin lögsögu á sama tíma og stærri þjóðir veiða úr sama stofni  óáreittar myndi varla boða gott um sameiginlega fiskveiðistefnu.
Loks hlýtur ESB að vilja sanna sig gagnvart eigin þegnum, ekki hvað síst í Grikklandi og öðrum löndum sem gengið hafa í gegnum þrengingar að undanförnu. Sanna að hagsmunir almennings verði látnir ráða för við úrlausn á vanda evrusvæðisins.
Vonandi getum við orðið öðrum fyrirmynd með því að takast á við sameiginleg úrlausnarefni sem sameinuð þjóð. En hvað er það sem gerir okkur að þjóð annað en það, að við byggjum saman eyju nokkra í Norður-Atlantshafi? Og hvert er framlag okkar til heimsmenningarinnar,“ sagði forsætisráðherra.