Til hamingju með daginn sjómenn

127
Deila:
Einn af fyrri hetjum hafsins, Ingimar Magnússon.

Sjómannadagurinn í dag er haldinn í skugga kórónaveirunnar. Skemmtana- og hátíðahöld eru í lágmarki vegna hennar. En það dregur ekkert úr mikilvægi sjómanna fyrir land og þjóð. Það er afrek að á tímum heimsfaraldurs hefur tekist að halda sjósókn lítið sem ekkert breyttri. Hetjur hafsins skila fiskinum á land eins og áður og varla hefur fallið úr dagur í fiskvinnslu á landinu af völdum veirunnar.
Á tímum hennar hefur sjávarútvegurinn verið að skila vaxandi útflutningstekjum og þannig lagt sitt að mörkum til að styðja við efnahag landsins á erfiðleikatímum. Við skulum hafa í huga að það eigum við að miklu leyti sjómönnum að þakka. Án þeirra kemur enginn fiskur að landi. Við skulum hafa það í huga hverjir fara fremst í flokki í sköpun verðmæta úr auðlindum hafsins.
Við skulum hafa í huga að vega ekki gegn starfsöryggi þeirra. Þeir eru ekki bara undirstaða í fiskveiðunum. Þeir eiga einnig fjölskyldur í landi, konur og börn, sem eiga eftir að vaxa úr grasi og hugsanlega taka við af feðrum sínum við að skjóta tryggum stoðum undir efnahags landins.

Deila: