Tillögur að minningareit metnar

Deila:

Síðastliðinn mánudag kom saman dómnefnd sem metur þær tillögur sem bárust um gerð minningareits á austasta hluta grunns gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað, en reiturinn verður helgaður þeim sem farist hafa í störfum hjá Síldarvinnslunni. Alls bárust átta tillögur en skilafrestur á þeim var til 1. október sl.

Í dómnefndinni eiga sæti þær Guðný Bjarkadóttir skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar, Björk Þórarinsdóttir stjórnarmaður í Síldarvinnslunni og Anna Berg Samúelsdóttir umhverfisstjóri Fjarðabyggðar. Að sögn Guðnýjar gengu störf dómnefndarinnar vel en nefndin gerir ráð fyrir að skila niðurstöðum sínum um 20. nóvember nk.

 

Nefndin sem metur tillögurnar um minningareitinn. 
Talið frá vinstri: Anna Berg Samúelsdóttir, 
Guðný Bjarkadóttir og Björk Þórarinsdóttir. 
Ljósm. Hákon Ernuson

Eins og áður hefur komið fram á heimasíðu Síldarvinnslunnar verða veitt verðlaun að upphæð 600.000 kr. fyrir vinningstillöguna. Þá hefur einnig komið fram að Síldarvinnslan áskilur sér rétt til að hafna öllum tillögum. Gert er ráð fyrir að arkitekta- eða verkfræðistofa fullvinni þá tillögu sem fyrir valinu verður og frá upphafi hefur legið fyrir að heimilt væri að nýta fleiri en eina tillögu til útfærslu og myndi þá verðlaunaféð skiptast á milli viðkomandi þátttakenda.

 

 

Deila: