Togarar SVN og Bergs-Hugins með 20.800 tonn á liðnu fiskveiðiári

127
Deila:

Afli togara Síldarvinnslunnar og dótturfélagsins Bergs-Hugins á fiskveiðiárinu sem var að líða var samtals 20.800 tonn . Afli hvers skips var sem hér segir miðað er við slægðan afla:

Gullver NS                     5.300 tonn
Bergey VE                     2.900 tonn
Vestmannaey VE          3.300 tonn
Smáey VE                     2.000 tonn (einungis gerð út hluta úr árinu)
Blængur NK                  7.300 tonn

Farið er yfir gang mála á heimasíðu Síldarvinnslunnar og segir þar svo: „Segja má að fiskveiðiárið hafi verið viðburðaríkt þar sem tvö ný skip, Vestmannaey VE og Bergey VE, hófu veiðar á árinu. Ný Vestmannaey hóf veiðar í byrjun októbermánaðar og ný Bergey VE í janúar. Um tíma var Smáey VE einnig gerð út en í febrúarmánuði var skipið leigt Samherja hf. og það síðan selt þorbirni hf. í Grindavík í maímánuði. Útgerð nýju skipanna hefur gengið afar vel frá upphafi og lönduðu þau 6.200 tonnum samtals á sínu fyrsta fiskveiðiári.

Blængur NK með gott hol. Ljósm. Hreinn Sigurðsson

Veðurfarslega var síðasta haust erfitt og enn versnaði tíðarfarið þegar kom fram á veturinn. Til að mynda lönduðu Vestmannaeyjaskipin engum afla fyrr en eftir miðjan janúar í kjölfar jólastopps vegna stöðugrar brælu við suðurströnd landsins.

Eftir hinn erfiða vetur tók við mikið fall á eftirspurn eftir ferskum fiski vegna óvissu og aðgerða sem tengdust covid-19 faraldrinum. Hægt var á sókn ísfisktogara vegna þessa frá marsmánuði og fram í maí og var í reynd enginn fiskur veiddur til fersks útflutnings nema hann væri fyrirfram seldur.

Trollið tekið hjá Vestmannaey VE. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Hjá öllum skipunum var stöðugur eltingaleikur við ufsann. Gekk erfiðlega að finna hann og kemur það til dæmis fram í aflatölum hjá Gullver NS en skipið fiskaði rúmlega helmingi minna af ufsa á nýliðnu kvótaári en á árinu á undan eða einungis 540 tonn í stað 1.205 tonna. Þrátt fyrir þetta gekk útgerð Gullvers vel á árinu og var heildarafli skipsins 5.300 tonn eins og að framan greinir þó um minni sókn hafi verið að ræða.

Afar vel gekk að veiða djúpkarfa og grálúðu hjá frystitogaranum Blængi NK en hápunktur ársins hjá skipinu var þó Barentshafstúrinn sem farið var í í júnímánuði sl. Um var að ræða mettúr hjá Blængi en aflinn var 1430 tonn upp úr sjó að verðmæti 512 milljónir króna fob.

Á nýliðnu kvótaári leigði Síldarvinnslan til sín aflaheimildir sem námu 1.205 tonnum og náðist allur kvóti að undanskildum örfáum kílóum af flatfiskum.“

 

 

Deila: