Túrarnir taka einn og hálfan sólarhring

103
Deila:

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu til Vestmannaeyja seint í fyrrakvöld með fullfermi. Veiðiferð skipanna hafði tekið einn og hálfan sólarhring. Landað var í gær en að löndun lokinni fara áhafnirnar í heilsufarsskoðun og verður ekki á ný haldið til veiða fyrr en á fimmtudagskvöld.

Bæði skipin lönduðu áður fullfermi síðastliðinn sunnudag þannig að vart verður kvartað undan veiðinni. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir að það hafi verið sannkölluð mokveiði að undanförnu. „Hér um borð eru menn kátir og ánægðir. Vertíðin hefur verið fín og sem betur fer hafa menn sloppið við stórviðri og brælur þannig að allt hefur gengið eins og best verður á kosið. Þessi túr var í einn og hálfan sólarhring og þar af fór megnið af tímanum í stím. Við byrjuðum á Selvogsbankanum og þar var sannkölluð mokveiði í þorski. Síðan kom að hrygningarstoppi og svæðinu þar var lokað. Þá var keyrt austur á Síðugrunn og þar fékkst ýsa. Við fylltum skipið þar. Sannleikurinn er sá að menn þurfa að gæta sín að fá ekki alltof mikið í trollið – þetta hefur verið aðgæsluveiði,“ segir Birgir Þór í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að í túrnum hafi þeir fyllt skipið í sex holum. „Við byrjuðum vestan við Surt, á 70 faðma blettunum, og tókum þar þrjú hol. Þar var bullandi þorskveiði. Síðan var svæðinu lokað og þá var siglt austur á Síðugrunn. Þar voru tekin þrjú hol og skipið fyllt. Á Síðugrunni fékkst ýsa og svolítill ufsi. Við vorum allan tímann að reyna að fá ekki of stór hol þannig að það er um hörkufiskirí að ræða og veiðiferðirnar að undanförnu hafa ekki náð tveimur sólarhringum. Nú kemur smá hlé vegna heilsufarsskoðunar áhafnarinnar og það er bara vel þegið,“ segir Jón.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson.

 

Deila: