-->

Undirskriftir gegn lækkun veiðigjalda

„Mér finnst það mjög sérstakt ef það á að greiða þjóðaratkvæði um lög sem standast hvorki að formi né efni. Þau lög sem nú er verið að breyta, voru sett í fyrra og standast engan veginn ákvæði stjórnarskrárinnar. Þar er allt of langt gengið í skattlagningunni auk þess sem þau voru óframkvæmanleg, sem er kapítuli út af fyrir sig,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, í samtali við kvotinn.is

Rúmlega 15.000 manns hafa skrifað undir áskorun á netinu til Alþingis um að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um veiðigjaldið. Segir á vef undirskriftarsöfnunarinnar að verði þingheimur ekki við óskum þeirra sem skrifa undir verði áskorunin send Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum um veiðigjöld heldur vísi þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.
„Við fögnum því að ríkisstjórnarflokarnir hafi lýst því afdráttarlaust yfir að það verði ekki byggt á lögunum sem sett voru í fyrra, enda hefur verið sýnt fram á að þau eru, bæði að formi og efni, ónothæf og skaðleg fyrir atvinnugreinina. Það er öllum ljóst, sem hafa skoðað lögin og metið áhrifin. Nú er hins vegar er verið að setja þarna fram bráðabirgðaákvæði sem á að gilda fyrir næsta fiskveiðiár. Eftir því sem við fáum skýringar um er það að hluta til byggt á lögunum frá því í fyrra, þannig að við sjáum framkvæmdina koma mjög illa út fyrir margar veiðigreinar. Við sjáum til dæmis ekki forsendur fyrir því að hækka sérstaka veiðigjaldi á uppsjávarfisk um 40%.
Í fyrsta lagi er gjaldið almennt of hátt, en sé að síðan ætlunin að setja einhverja skattlagningu til viðbótar á sjávarútveginn, verður að taka mið af afkomu einstakra fyrirtækja. Meðaltals skattur á alla gengur ekki upp miðað við hvað afkoma fyrirtækjanna er mismunandi. Svo kemur þetta mjög mismunandi niður á einstakar veiðigreinar eða fisktegundir vegna þess að ekki er tekið tillit til mismunandi afkomu og kostnaðar við að sækja einstakar fisktegundir. Það þarf því að taka þessi lög algjörlega upp í heilu lagi.
Þetta hefur gengið út á að skattleggja svonefndan umfram hagnað, sem hefur verið skilgreindur sem hagnaður umfram að sem gerist í öðrum atvinnugreinum. Það hefur nú meira og minna tapast og menn misstu sig alveg í að skattleggja án þess að tillit væri til þess tekið. Það er víða sem menn eru alls ekki að ná neinni afkomu, sem getur flokkast undir umframhagnað. En ef það gerist þarf að beina skattlagningunni þangað umframhagnaðurinn er. Þar þarf þá að gilda það sama í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum. Við erum bara að biðja um almennar reglur, sem eru framkvæmdar jafnt fyrir alla, þar sem fyrirtæki eru ekki skattlögð þannig að þeim er gert að greiða miklu meira en allur hagnaður þeirra er. Það fór allt yfir strikið í fyrra. Við erum bara að biðja um það núna að vandað verði til verka við lagasetningu og þar verði markmiðin skýr,“ segir Friðrik J. Arngrímsson.
Á meðfylgjandi mynd eru skip í Reykjavíkurhöfn í fyrra til að mótmæla hækkun veiðigjalda. Ljósmynd Hjörtur Gíslason