-->

Unglingar í sumarvinnu hjá HB Granda

Engar sumarlokanir verða í fiskiðjuverum HB Granda í sumar frekar en í fyrrasumar. Skólafólk sér í flestum tilvikum um að leysa fastráðna starfsfólkið af þegar það fer í sumarleyfi og alls munu á annað hundrað unglingar fá störf hjá félaginu yfir sumarmánuðina samkvæmt upplýsingum á heimasíðu HB Granda.

Að sögn Bergs Einarssonar, verkstjóra í landvinnslunni á Norðurgarði í Reykjavík, hafa 45 skólanemar verið ráðnir til starfa í Reykjavík í sumar og 20 á Akranesi. Þetta eru heldur færri en í fyrrasumar vegna minni afla til vinnslu yfir sumarmánuðina en verið hefur undanfarin ár.
,,Nú bryddum við hins vegar upp á því nýmæli að haldin eru námskeið fyrir sumarstarfsfólkið þar sem farið er fyrir helstu atriðin sem fiskvinnslufólk þarf að kunna skil á. Það eru meðhöndlun hráefnis, gæðamálin, hreinlætismálin og vinnuvernd og öryggismál. Þetta eru þrjú fjögurra tíma námskeið og standa þau nú yfir,“ segir Bergur Einarsson.
Á Vopnafirði hefur verið hlé á vinnslu síðan loðnuvertíð lauk og vinna í fiskmjölsverksmiðjunni hefur sömuleiðis legið niðri síðan lokið var við að veiða kolmunnakvótann. Vinnsla hefst að nýju í byrjun júlí þegar veiðar á norsk-íslensku síldinni og makríl hefjast. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra munu 70 til 80 manns starfa við vinnsluna í sumar og stór hluti þess hóps er skólanemar.

Unga stúlkan á myndinni er reyndar ekki í vinnu hjá HB Granda, heldur Samherja, en mikill fjöldi ungs fólks fær vinnu við fiskvinnslu í sumar.